Fjör í frjálsum
UÍA heldur þessa dagana á Egilsstöðum einn af Frjálsíþróttaskólum UMFÍ. Þar eru saman komnir 15 krakkar alls staðar af á landinu við æfingar á hinum ýmsu greinum frjálsra íþrótta.
Hópurinn unir sér vel undir leiðsögn Ólafs Björnssonar yfirþjálfara en hann heldur utan um hópinn á æfingum og í hinum ýmsu viðburðum. Á dagskránni auk frjálsíþróttaæfinga eru gönguferðir, leikir, spil, pool, borðtennis, sund, óvissferð og ýmislegt fleira.
Á æfingunum er farið yfir allar helstu greinar frjálsra íþrótta, krakkarnir frædd um grundvallaratriði að baki árangri í greinunum og tæknin kennd. Á síðari æfingu dagsins í dag fengum við góða gesti. Það voru þeir Einar Hróbjartur Jónsson spjótkastari og Hreinn Halldórsson, fyrrverandi Evrópumeistari í kúluvarpi. Kenndu þeir krökkunum tökin á kastgreinunum. Hér fyrir neðan má sjá myndir af því.
Skólanum lýkur á föstudagsmorgun með frjálsíþróttamóti þar sem krakkarnir keppa í sínum eftirlætisgreinum. Áhugasamir eru hvattir til að kíkja við á Vilhjálmsvelli og sjá hvernig þeim tekst til.