Nýr framkvæmdastjóri
Stefán Bogi Sveinsson hefur verið ráðinn til starfa sem nýr framkvæmdastjóri UÍA.
Stefán Bogi er lögfræðingur og hefur undanfarin tvö ár starfað sem lögmaður í Reykjavík. Hann er ekki ókunnugur Austurlandi. Hann er fæddur á Héraði og hefur búið í Jökulsárhlíð, á Vopnafirði og síðast á Egilsstöðum þar sem hann nam við ME. Faðir hans, Sveinn Guðmundsson, sat í stjórn UÍA á sjöunda áratugnum. Sjálfur hefur Stefán mikla reynslu af félagsstörfum.
Fátt segir af íþróttaferli Stefáns en hann spilaði fót- og körfubolta með yngri flokkum Hattar, fótbolta með meistaraflokki Þristar og keppti í kringlukasti á bikarmeistaramóti fyrir hönd UÍA. Að hans eigin sögn varð hann ekki neðstur.
Hann hefur þegar tekið til starfa og mun stýra skrifstofu UÍA á Egilsstöðum.