Fundargerð 20150727

Fundur í stjórn UÍA 27. júlí 2015 kl. 18:00.
Haldin á skrifstofu UÍA á Egilsstöðum

Mættir: Gunnar Gunnarsson, Jósef Auðunn Friðriksson, Reynir Zöega, Elsa Guðný Björgvinsdóttir, Pálína Margeirsdóttir og Vigdís Diljá Óskarsdóttir sumarstarfsmaður.


1. Síðasta fundagerð
Fundargerð síðasta fundar lesin og rædd.

Fundagerðin samþykkt án athugasemda.


2. Innsend erindi

Styrkur til NSU fara
Rebekka Karlsdóttir sækir um styrk til að sækja ungmennaviku NSU í Danmörku í ágúst.

Samþykkt að styrkja hana um 20.000 krónur sem tekið verður af liðnum “leiðtogaþjálfun”.


3. Skýrsla skrifstofu

Frjálsíþróttaskóli
Fór fram dagana 22.-26. júní sl. Þáttakendur voru 14 talsins víða af Austurlandi. Gist var í félagsmiðstöðinni Ný-ung en ef verkefnið verður aftur á næsta ári er möguleiki að ekki verði hægt að gista þar aftur sökum brunavarna. Vikan gekk vel fyrir sig en var mikið álag þar sem báðir starfsmenn eða önnur voru í skólanum frá 8:30-22:30 og því sat skrifstofan á hakanum á meðan. Álagið orsakaðist aðallega af einstaklingum innan hópsins sem þurftu meira aðhald en önnur börn. Það sem bjargaði í rauninni málunum var Pálína sem var næturvörður, þrátt fyrir veikindi, og sá algjörlega um krakkana og var oft með í kvölddagská líka.

Staða sundmála
Ekki hefur verið haldinn annar fundur með sundráði UÍA eftir þann fyrsta, þar sem skipaður var formaður ráðsins. Sundmót Eskju á sumarhátíðinni var það þyngsta á hátíðinni að mati starfsmanna. Enginn lærður dómari er á staðnum, yfirdómara var reddað á síðustu stundu og tæknimanneskja fengin að norðan. Það voru einstaka foreldrar sem voru mjög duglegir, mættu á námskeið um mótaforritið, voru sjálfboðaliðar og almennt jákvæðir á meðan aðrir foreldrar afþökkuðu sjálfboðaliðavestið pent. Ólík stemning frá t.d. frjálsíþróttamótinu þar sem foreldrar og sjálfboðaliðar voru ótrúlega magnaðir. Það er ekki mikill vilji inná skrifstofunni fyrir því að halda annað sundmót á meðan staðan og áhuginn er svona. En ef að frumkvæðið kemur utan skrifstofunnar erum við auðvitað meira en tilbúið að styðja við það.

Launaflsbikarinn
Gengur vel, engin kærumál komin fram og leikir almennt drengilegir og skemmtilegir. Nú er síðustu umferð hinsvegar lokið og fer að líða að úrslitum sem eru í höndum UÍA að skipuleggja.

Sumarhátíð
Gekk að mestu vel. Dagskráin var stærri en nokkru sinni, sumir viðburðir (eins og street ball, crossfit og púttmót eldriborgara) gengu mjög vel og hafa líklega fest sig í sessi fyrir næstu ár. Aðrir viðburðir gengu ekki jafn vel (eins og ljóðaupplestur, sundmótið og sundleikfimi) aðallega vegna dræmrar þátttöku keppanda eða sjálfboðaliða. Þar má líklega reikna með að veðrið hafi sett strik í reikninginn. Á næsta ári þarf klárlega að fá fleiri sjálfboðaliða sem vita hvert þeirra hlutverk er og geta gengið beint í það, einhverja sem sjá td alfarið um grillveisluna og annað þvíumlíkt. Álag á starfsmenn og formann var mikið. Orsakast af því hversu dagskráin var dreifð um svæðið og fáar hendur að vinna fjölbreytt verk.

Greinamót
Fyrstu tvö greinamót UÍA og HEF eru nú búin, það seinna var miðvikudaginn 22. júlí sl. og gekk stór vel þrátt fyrir úrhelli.

Álkarlinn
Samstarfsverkefni UÍA og Alcoa þar sem þrjár Austfirskar þrekraunir eru undir sama merkinu, hjólreiðar, sund og hlaup. Auglýsingar og markaðssetning aðeins farin af stað eftir að Logo-ið fékkst staðfest. Reiknum með því að keppnin verði ekki stór í ár en muni stækka og vonandi verða vinsæl á komandi árum.

Urriðavatnssundið
Urriðavatnssundið er fyrsta þraut Álkarlsins og fór fram á laugardaginn síðastliðinn. UÍA sá um tímavörslu í samstarfi við fleiri sjálfboðaliða og gekk ágætlega. Margt sem læra má af skipulagi keppninnar sem hægt væri að nýta í skipulagi Tour de Ormurinn. HEF sem er í samstarfi við keppnina var með starfsmenn á staðnum.

Unglingalandsmót
Verður á Akureyri um helgina og á UÍA rétt rúma 100 keppendur þar. Í augnablikinu erum við a að skoða ferðakosnað. Síðastliðin ár hefur verið leigt tjald á Egilsstöðum og sendiferðabíll, til þess að m.a. flytja tjaldið. Nú erum við að skoða valkosti varðandi það.
a) er hægt að leigja tjald á Akureyri á svipaðan prís
þá væri hægt að fara á fólksbílum
b) er hægt að semja við eitthvað flutningsfyrirtæki um að flytja tjaldið (ofl) frítt fyrir okkur norður. Í staðinn myndi UÍA auglýsa á facebooksíðu og jafnvel eitthvað á/í tjaldinu.
Keppnisstaðir verða hinsvegar 29 þetta landsmótið en meðalfjöldi keppnisstaða eru uþb 11. Ofan í þetta er svo bæjarhátíð á Akureyri og rúmlega nóg að gera fyrir þann skara af keppendum sem við verðum með. Það er vert að spyrja sig, er þess virði að vera með tjald og grill/bingó/spurningakeppni/samhrysting þegar krakkarnir geta valið um það eða ball á torginu.

Tour de Ormurinn
Hjólreiðakeppni sem UÍA vinnur í samstarfi við Austurför, ferðaskrifstofu. Keppnin fer fram 15. ágúst nk. Núna er verið að safna verðlaunum fyrir keppnina og gengur ágætlega.

Skógarhlaup
Bankinn og UÍA, aðalega þau síðarnefndu, hafa séð um skipulag hlaupsins síðastliðin ár en núna er það algjörlega á herðum UÍA. Verkefnið hefur verið fjáröflun fyrir td frjálsíþróttadeildina en afrekshópurinn verður akkúrat á MÍ þessa helgi og þjálfarar með þeim. Við vitum því ekki alveg hver tekur hlaupið að sér þetta árið en ef frjálsarnar sjá sér ekki fært að taka hlaupið þá verður það líklega auglýst á heimasíðunni og facebook sem fjáröflun fyrir aðra hópa/deildir.

Álag á skrifstofu
Fyrri part sumars, sérstaklega, var mikið álag á skrifstofuna. Eftir að sumarstarfsmaður hóf störf hafði framkvæmdastýra 2 vikur með henni á skrifstofunni áður en hún var rokin út í farandþjálfun. Þar með var sumarstarfsmaður einn á skrifstofunni. Í farandþjálfun voru farnir 900 km á viku og oft á tíðum voru 2-6 á æfingum og stundum enginn. Svo kom frjálsíþróttaskólinn. Þar voru báðir starfsmenn frá morgni til kvölds. Fyrir sumarhátíð voru vinnudagar oft mjög langir og bókstaflega unnið myrkranna á milli. Þar var stuðningur formanns mikilvægur og hreint ómissandi. Sumarstarfsmaður og framkvæmdastýra vinna mjög vel saman og því rosalega margt gengið vel upp sem hefði verið töluvert erfiðara með annari samsetningu af starfsmönnum. Þær hafa báðar hugsjón fyrir íþróttaiðkunn og ungmennastarfi og því fórnfúsar á tíma sinn, en samt ... halló þær eiga líf utan vinnunar.
Til að bæta þetta ástand mætti td hafa annan starfsmann í farandþjálfuninni sem yrði kannski bara yfir sumarhátíð, eða jafnvel allt sumarið eða fækka verkefnum eða hækka laun hjá starfsmönnum þannig að hægt sé að segja að þeir fái borgað miðað við vinnu. Það miða sig allir við frjálsan markað.

Skýrsla skrifstofu rædd.


4. Hun-Ice verkefnið
Gunnar Gunnarsson, formaður, segir frá samstarfsverkefni UÍA og Gyermek í Orosháza.

Af hverju?
Í vor fékk UÍA ósk frá ungversku samtökunum GYIÖT um vera félagi í evrópsku ungmennaskiptaverkefni. Ungverjarnir báru þungann af grunn styrkumsókninni og útfærslu verkefnisins.

Hvað?
Um er að ræða verkefni þar sem aðal áhersla verður á að læra hvort af öðru, leiðtogahæfni, íþróttaiðkun og menningarlegan mismun. Verkefnið fer fram í borginni Orosháza dagana 8.-15. september en dagarnir 7. og 16. fara mjög líklega í ferðalag.
Umfangið?
12 ungmenni og 2 leiðtogar.

Fjárhagur?
Gera má ráð fyrir að flugið Keflavík-Búdapest kosti 80 þúsund, ÍSÍ fargjald Egilsstaðir-Reykjavík er 25 þúsund og flugrútan til Reykjavíkur kostar um 5 þúsund. Til einföldunar gerum við ráð fyrir 110 þúsund á hvern þátttakanda. Heildarferðakostnaður er 1,54 milljónir.
Evrópustyrkurinn er 270 Evrur á mann, eða um 40 þúsund krónur. Eftir standa 70 þúsund á mann eða alls 980.000 krónur.
Með því að láta hvern þátttakanda, aðra en leiðtoga, leggja fram 15.000 krónur eru eftir 800.000 krónur.
Sveitarfélögin hafa tekið vel í að koma að kostnaði. Ef hægt væri að sannfæra þau um að taka innanlandsflugið, 25 þúsund á mann, eru eftir 450.000 krónur.
Spurningin er hvernig það verði brúað.


Fleira ekki tekið fyrir og fundi slitið kl. 20:28.

 

Fundargerð 20150331

Stjórnarfundur 31. mars 2015 haldinn á Hildebrand Norðfirði, kl 17:30.
Mætt: Hildur, Ásdís Helga, Gunnar Gunnarsson og Gunnlaugur Aðalbjarnarson. Gunna Solla og Sigrún Helga á Skype.

Síðasta fundargerð samþykkt.

Innsend erindi:
Kjörbréf á Íþróttaþing ÍSÍ 17.-18. apríl. Farið var yfir kjörbréf, þarf að fylla út og senda fyrir 3. apríl. GG ætlar að fara auk varamanns.

Umsókn Lilju Einarsdóttur blakkonu um styrk úr Afreks- og fræðslusjóði UÍA. Ákveðið var að styrkja hana um 50.000
Óskað er eftir heimild til að vinna að ungmennaskiptum frá Ungverjalandi í sept til des 2015. Þar er ungmennaráð sem leggur áherslu á íþróttir og langar að bjóða okkar fólki út. Stjórn samþykkir að vinna áfram að erindinu.
Skýrsla stýru:
Páskaeggjamót UÍA og Fjarðasports í frjálsum íþróttum á Norðfirði 22. mars, 24 þátttakendur, gekk vel að mestu en slys á starfsmanni skyggði nokkuð á gleðina.

Heimsókn SSÍ sem vera átti 14. mars var frestað vegna veðurs, ný dagsetning hefur ekki verið ákveðin.

Bólholtsbikar Úrslitahátíð fór fram 29. mars, Höttur vann æsispennandi úrslitaleik. Úrslitakeppnin heppnaðist vel og 3 stigakeppni milli leiki vakti lukku. Erfiðleikar með að fá dómara og gagnrýnisraddir á fyrirkomulag úrslitakeppninnar.

Lottó búið að greiða út. Vegna mistaka í útreikningi skrifstofu láðist að greiða út til eins félags sem uppfyllti öll skilyrðu. Það var tekið af úthlutun UÍA. Því fengu félögin ívið meira en áætlað var.

Sumarstarfsmaður: Gengið hefur verið frá ráðningu sumarstarfsmanns Vigdís Diljá Óskarsdóttir. Einróma ákvörðun, þrátt fyrir 5 mjög góðar umsóknir. Hún byrjar um miðjan maí.

Sprettur Sporlangi og kvikmyndateymið heimsóttu Seyðisfjörð þar sem farið var í ringó og hláturjóga með eldri borgurum og blak með krökkum í Huginn. Sprettur heimsótti einnig sundæfingu Neista á Djúpavogi.
Ráðgert að heimsækja Reyðarfjörð, Eskifjörð og Norðfjörð fljótlega eftir páska.

Fjármál
Farið var yfir ársreikning fyrir árið 2014 og hann samþykktur.

Fjárhagsáætlun var samþykkt á síðasta fundi.

Væntanlegt sambandsþing á Hallormsstað
Framkvæmdarstýra kallaði upp dagskránna og farið var yfir hana lið fyrir lið.
Önnur mál
SHS og GSS fóru á aðalfund Hestamannafélagsins Blæs, þær sögðu frá.
HB sagði frá Ákarlinum samstarf á Álversins og íþróttamótaviðburðanna Tour de Ormurinn, Barðsneshlaups og Urriðavatnssundið sem yrði þá töluvert erfið þríþraut.
Ákveðið var að sú stjórn sem nú situr reyni að borða saman að kvöldi þingdags, til að kveðja þá sem eru að fara úr stjórn.

 

Fundargerð 20150217

Stjórarfundur UÍA 17. febrúar 2015, kl 17:30 haldinn á Reyðarfirði.
Mættir: Gunnlaugur Aðalbjarnarson, Hildur Bergsdóttir, Gunnar Gunnarsson, Sigrún Helga Snæbjörnsdóttir og Guðrún Sólveig Sigurðardóttir (í símanum :) )
1. Síðasta fundargerð, leiðrétt samkv. athugasemd frá formanni.
Samþykkt.

2. Innsend erindi:
Erindi frá UMFÍ dagsett 16. febrúar. Frjálsíþróttaskóli UMFÍ
Þar kemur fram að þeir sem hafi áhuga á að halda hann gefi síg í ljós. Hildur lætur vita að við höfum áfram áhuga á að vera með.
Erindi frá ÍSÍ dagsett 9. febrúar 2015.Fulltrúafjöldi á ÍSÍ þingi 17.-18. apríl. UÍA á tvo þingfulltrúa.
Óskað eftir framboðum til stjórnar. GG ætlar að fara vill gjarnan hafa einhvern með sér.
Erindi frá UMFÍ dagsett 5. febrúar 2015. Sæmundur Runólfsson framkvæmdastjóri lætur af störfum.
Erindi frá ÍSÍ dagsett 9. febrúar 2015. Lífshlaupið er hafið-skráðu þig til leiks.
Hófst fyrir ca 2 vikum.
Erindi frá SportTV, barst 19. janúar 2015. Óskað eftir samstarfi.
Skoðað samstarf sérsambanda við Sport TV, þau hafa verið að senda töluvert af íþróttakappleikjum. Er í ferli.

3. Skýrsla framkvæmdastýru

Frjálsíþróttaráð fundaði með þjálfurum úrvalshóps 4. feb. Mynduð ágæt samstaða um hópinn.
Kynningardagur á frjálsum íþróttum 8. mars á Reyðarfirði, úrvalshópur UÍA aðstoðar við þjálfun.
Úrvalshópurinn verður þar með í að þjálfa.

Sundsráð erindi frá SSÍ landsliðsþjálfari og stjórnarmaður væntanlegir austur með æfingabúðir, og ýmsar leiðbeiningar 14. mars.
Æfingar fyrir krakkana og þjálfarana auk upplýsinga fyrir foreldra, + dómaranámskeið.

Ást gegn hatri, fyrir liggja umsóknir um stykri í Æskulýðssjóð og samfélagssjóð Landsvirkjunnar.

KSÍ þing um síðustu helgi, góð mæting héðan fullt hús fulltrúa 10 stk. Jöfnun á ferðakostnaði samþykkt á þinginu.
Ánægjulegt

Komdu þínu á framfæri undibúningu í gangi. Gaman væri að sjá stjórnarmenn og konur á þingunum. 25. febrúar í Fjarðabyggð og 26. febrúar á Héraði.

Fundur framkvæmdastjóra innan UMFÍ, fín ferð margt fróðlegt. Áhugavert erindi dr Viðars um áherlsur á siðferðis- og félagsþroska í íþróttaþjálfun. Gaman væri að fá slíkt erindi inn á þjálfaradag sem fyrirhugaður er í haust.

Við erum öll fyrirmyndir Álskilti sem minna fullorðið fólk á að haga sér eins og fullorðið fólk á íþróttakappleikjum barna og unglinga. UMFÍ gefur skiltin og UÍA með 20 stk sem ber að festa upp í og við íþróttamannvirki.

Tour de Ormurinn gengur treglega að fá stóran styktaraðila, nú verið að óska eftir minni bakhjörlum og það gengur betur. Opnað hefur verið f skráningar. Verið að vinna að hliðarviðburðum og flottri dagskrá fyrir hjólafólk.

Sprettur the movie, vonandi hefjast tökur í vikunni.
Fundur með formönnum íþróttafélaganna og sveitastjórnarmönnum í deiglunni.


4. Fjármál
Farið var yfir stöðu á uppgjörinu, næstu skref eru að gjaldkeri og framkvæmdarstýra rýni í reikningana. Reiknað með að koma með reikninga á næsta fund til að skýra stjórn frá.

5. Tillögur fyrir þing UÍA
Tillögupakkinn okkar og UMFÍ

6. Fyrirmyndarhéraðssambönd
Formaður og framkvæmdarstýra taka að sér að vinna siðareglur fyrir UÍA, það væri þá fyrsta skrefið í að vinna undirbúningsvinnu varðandi það að ávinna sér að það að UÍA verði Fyrirmyndahéraðssamband

7. Stjórnarskipan
Það lítur þannig út að það gætu orðið ansi miklar mannabreytingar í stjórninni með vorinu. Farið var yfir nokkrar hugmyndir.

8. Önnur mál
Þurfum að taka upp Sprettssamninginn (GG)

 

Fundargerð 20150120

Stjórnarfundur UÍA 20. janúar 2015 kl 17:30
Mætt: Gunnar Gunnarsson (GG), Gunnlaugur Aðalbjarnarson (GA), Sigrún Helga Snæbjörnsdóttir (SHS), Guðrún Sólveig Sigurðardóttir (GSS), Ásdís Helga Bjarnadóttir (ÁHBj), Jósef Auðunn Friðriksson (JAF) sem ritar fundargerð og Hildur Bergsdóttir (HB), framkvæmdastýra.

1. Síðasta fundargerð
Samþykkt

2. Innsend erindi
a) Beiðni Brettafélags Fjarðabyggðar um inngöngu í UÍA dagsett 5. janúar 2015.
Stjórn samþykkir beiðnina með fyrirvara um samþykki laganefndar ÍSÍ og UMFÍ á lögum félagsins.
b) Beiðni Skotmannafélags Djúpavogs um inngöngu í UÍA dagsett 18. janúar 2015.
Stjórn samþykkir beiðnina með fyrirvara um samþykki laganefndar ÍSÍ og UMFÍ á lögum félagsins.
c) Erindi frá vinnuhópi um framkvæmd landsmóta UMFÍ, óskað eftir umsögnum.
Lagt fram til kynningar. Framkvæmdastýru falið að senda erindið til aðildarfélaga og óska eftir athugasemdum frá þeim ef einhverjar eru.
d) Fundarboð á framkvæmdastjórafund UMFÍ 30. janúar 2015.
Framkvæmdastýra sækir fundinn.
e) Fyrra fundarboð á Íþróttaþing ÍSÍ 17.-18. apríl.
Lagt fram til kynningar. UÍA á rétt á tveimur fulltrúm á þingið.
f) Erindi frá UMFÍ um námsferð framkvæmdarstjóra/forystufólks sambandsaðila UMFÍ 7.-10 maí til Dannmerkur.
Lagt fram til kynningar.
g) Erindi frá Frjálsíþróttaráði dagsett 20. janúar.
Ráðið var skipað þann 15. janúar og hefur sett sér starfsreglur.
Frálsíþróttaráð skipa Erla Guðlaugsdóttir, Hetti (formaður), Elsa Guðný Björnsdóttir frá Ásnum (ritari), Pálína Margeirsdóttir frá Val/Leikni, Ragnheiður Þórarinsdóttir, Þrótti og Svava Þórey Einarsdóttir frá Hetti. Stjórn ítrekar jafnréttisstefnu sambandsins.
Reynt var án árangurs að fá karla inn í ráðið.
Jafnframt óskar ráðið eftir föstu fjármagni til ráðsins í hverri fjárhagsáætlun UÍA.
Stjórn samþykkir starfsreglurnar en vísar óskum um meira fjármagn til fjárhagsáætlunargerðar.

3. Skýrsla framkvæmdastýru
Snæfell.
Vinnsla blaðsins gekk vel og auglýsingasöfnun sömuleiðis selt var fyrir 1.938.000 kr. (án vsk) Kostnaður við útgáfu blaðsins var hærri en reiknað var með í upphafi en ákveðið var að stækka blaðið uppí 44 síður og auka við upplagið um 100 blöð til að geta sent út til annarra héraðssambanda og aðila í hreyfingunni. Áætlaður hagnaður um 630.000 kr

Gleðigjafir
Gleðigjafir Landflutninga sem komu inn fyrir jólin 2013 höfðu ekki verið innheimtar en eru nú komnar í ferli og eru 330.737 kr. Verkefnið var einnig í gangi nú fyrir jólin. Framhald gleðigjafa almennt í skoðun hjá fyrirtækinu.

Ást gegn hatri.
Prufukeyrsla á Djúpavogi í byrjun desember. Skólastjórinn á Djúpavogi sagði erindin hafa verið áhrifamikil og gagnleg og fyrirlesarar skilað efninu vel. Fjarfundabúnaður UMFÍ var fenginn að láni, en nýttist ekki alveg sem skyldi vegna vanþekkingar á búnaðinum. Hermann annar fyrirlesaranna kom með þá hugmynd að gera þetta frekar í gegnum skype og vera þá ekki háð fjarfundarbúnaði. Hvert fyrirlestar sett (Selma talar við börnin, Hermann við foreldrana) kostar 35.000 kr. Framkvæmdastýru falið að leita styrkja til að hægt verði að ,,heimsækja“ alla skóla næsta vetur.

Frjálsíþróttaráð fundaði 15. janúar, miklar umræður um starf úrvalshóps, verið að skoða starfsreglur fyrir ráðið og sú vinna langt komin. Páskaeggjamót á Norðfirði 21. mars og verið að skoða Ávaxtamót á Fáskrúðsfirði 11. eða 18. apríl. Horft í æfingabúðir fyrir byrjendur í fyrrihluta mars og svo æfingabúðir fyrir lengra komna með Þráni Hafsteins og ÍR-ingum í lok maí.

Tour de Ormurinn höfum átt spjall og fundi með ýmsu hjólreiðafólki til að fá upplýsingar og ráðleggingar um fyrirkomulag keppninnar. Margt ganglegt komið þar fram. Verið að skoða að fá Maríu Ögn Guðmundsdóttur, hjólreiðakonu, til að koma austur í vor með hjólreiðanámskeið. Verið að leita styrktaraðila.
Keppnin í ár verður að öllum líkindum 15. ágúst, verið að vinna úr árekstrum við Skógarhlaup Íslandsbanka.

Komdu þínu á framfæri
Komdu þínu á framfæri á vegum Æskulýðsvettvangsins og kynning á Lýðháskólum og starfi UMFÍ 25. febrúar í Fjarðabyggð, haldið á Stöðvarfirði og 26. febrúar á Héraði.

Fundur með sveitarstjórnarfólki og forkólfum íþróttahreyfingarinnar í vor.
Jón Páll Hreinsson fyrrum formaður HSV er tilbúinn að koma austur og kynna íþróttaskóla HSV og samstarfssamninga sveitarfélaga og héraðssambands. Verið að skoða að fá UMSB og Djúpavogshrepp inn með erindi líka.

Sundmótaforrit er komið frá SSÍ, en hvorki kominn reikningur né námskeið með því.

4. Ferð á formannafund ÍSÍ
Fundurinn var í nóvember og sótti GG fundinn. Þar fjallaði hann um ferðakostnaðinn og dæmi um að félög neiti að koma austur til keppni vegna kostnaðar. Smáþjóðaleikarnir voru til umfjöllunar og verið er að safna sjálfboðaliðum til starfa á mótinu. HB fer sem sjálfboðaliði og GG stefnir á að fara líka.
Fundurinn var stórátakalaus og nokkuð góður að mati GG.

5. Starf ársins 2015, sumarstarfsmaður
Verkefni ársins sem formaður og framkvæmdastýra sjá fyrir sér. Þing verður haldið bæði hjá ÍSÍ í Reykjavík 17.-18. apríl og UMFÍ um miðjan október í Vík í Mýrdal. Ákveðið að halda sambandsþing UÍA laugardaginn 11. apríl. Auglýsa þarf eftir sumarstarfsmanni sem fyrst. Heiðdís Fjóla mun ekki sækjast eftir endurráðningu sem sumarstarfsmaður. Frjálsíþróttaskólinn er fyrirhugaður 22.-26. júní og farandþjálfun hæfist tveimur vikum fyrr. Sumarhátíðin verður 10.-12. júlí. Byrjað er að vinna í nýrri heimasíðu. Hún verður eitthvað dýrari en ráð var fyrir gert. Stefnt er að þjálfaranámskeiði í haust. Frjálsíþróttamótaröð HEF verður á sínum stað og Launaflsbikarinn í knattspyrnu. Reiknað er með að Bjartur verði haldinn, Tour de Ormurinn verður í ágúst svo eitthvað sé nefnt. Stefnt er að því að fara með fríðann flokk bæði á Landsmót 50+ á Blönduósi og á Unglingalandsmót á Akureyri.

6. Önnur mál
Undirbúningur fyrir sambandsþing.
Lottónefndin þarf að koma saman og sinna sínu verki sem er að yfirfara úthlutunarreglur lottótekna. GA mun boða til fundar í samvinnu við skrifstofu sem aflar gagna fyrir fyrsta fund.
Huga þarf að því í tíma hverjir gefa kost á sér til stjórnarsetu og hverjir sækjast eftir því að koma nýjir inn í stjórn.

Undirbúningsnefnd vegna Unglingalandsmóts 2017.
Stjórn samþykkir að tilnefna formann og framkvæmdastýru sem fulltrúa UÍA í nefndinni.

Fleira ekki gert – fundi slitið kl. 20:20

 

Fundargerð 20150615

Fundur í stjórn UÍA, 15. 6. 2015 kl. 18:00.
Haldin á skrifstofu UÍA á Egilsstöðum.

Mættir: Gunnar Gunnarsson, Jósef Auðunn Friðriksson, Reyni Zöega, Hlöðver Hlöðversson, Elsa Guðný Björgvinsdóttir, Hildur Bergsdóttir, framkvæmdastýra og Vigdís Diljá Óskarsdóttir sumarstarfsmaður.

1. Fundargerð síðasta fundar
Fundargerð síðasta fundar lesin upp og hún rædd.

Fundargerð samþykkt án athugasemda.


2. Innsend erindi.

Ungmennavika NSU í Danmörku,
UÍA leitar nú að leiðtogum framtíðarinnar á aldrinum 15-20 til að fara fyrir hönd sambandsins. Yfirskrift vikunnar er Norden redder Jorden Paly 4 the planet. Fjallað verður um náttúruna okkar, loftslag á norðurlöndum í bland við ævintýri og leiðtogahæfileka ungs fólks á Norðurlöndum. Þátttakendur fá tækifæri til að reyna sig í ýmsum aðstæðum s.s kajak ferð, klifri og sofa úti í náttúrunni.


3. Skýrsla skrifstofu

Álkarl
Viljum ekki byrja að auglýsa fyrr en verður komið Logo. Perla Sigurðardóttir, ný útskrifaður grafískur hönnuður frá Jökuldal sér um hönnun logosins en það er væntanlegt seinnipartinn á morgun.
Leitað hefur verið til Garðars Eyjólfssonar um hönnun á verðlaunagrip.

Skrifstofu falið að vinna málið áfram.

Launaflsbikarinn
Í siðustu viku var fundað með tengiliðum allra liða nema Einherja sem gleymdu fundinum. Þar var reglum lítillega breytt, leikjum raðað niður og farið yfir helstu mál. Fyrsta umferð LaunAflsbikarsins fór fram um helgina og gekk vel. Leikskýrslur byrjaðar að berast skrifsofu.

Sumarhátíðin
Lítur vel út, styrkir komnir fyrir öllum dagskráliðum. Fundað var með formanni eldriborgara í síðustu viku og þeirra aðkoma skipulögð. Dagskráin lýtur svona út í augnablikinu:

Föstudagur

Eldriborgarar plan 2 (betra veður – lengri tími)
15:00-16:00
• Pútt í pósthúsgarðinum
16:00-17:30
• Sundleikfimi til að byrja sundmótið

Sundmót Eskju
17:00
• skoða að hafa rennibrautakeppni í gangi á meðan sundmótinu stendur.
• Sund diskó eftir mót?

Borðtennismót
Kl 18:00
• Arnar Sigbjörns er til og Fúsi Gutt líka - ef hann verður á svæðinu.

Ljóðalestur
Kl 20:00
• Fullorðinsflokkur 16+ Barna og unglingaflokkur >16
• Fyrri umf. Bundin ljóð Seinni umf. Óbundin ljóð


Laugardagur

Sundmót Eskju
9:00

Crossfit mót – fyrra wod
10:30
• To do: Búa til wod og auglýsa
• Spons komið frá Heilsueflingu, Wod og Arion.
• mótsstjóri Karítas Hvönn


Street Ball Körfubolti á Villapark
11:30
• Mótsstjóri: Eysteinn Bjarni Ævarsson

Frjálsar íþróttir – Nettó
12:30
• To do: Tímaseðill

Crossfit mót – seinna Wod
kl?? skoða tímaseðil

Úthlutun úr Spretti
17:00
• Grillveisla
o Alcoa til í spons
• Frisbí golf?
o To do: redda sponsi
• Fáránleikar
o To do: búa til íþróttir


Sunnudagur

Frjálsar íþróttir – Nettó
Kl: 9:30

Bogfimi kynning og mót
Kl: Skoða tímaseðil þegar tilbúinn.

(Knattþrautir inní frjálsum?? eða bara á Sprettsleikunum?)

Boccia á Villapark
Kl 14:00
• Komið 30.000 króna spons frá héraðsprent

Hugmynd: Graffiti, hjólabretta, DJ smiðja. Yrði kvölddagskrá og kannski sýning á úthlutuninni,

Rætt um þátttökugjöld og hvort hækka ætti þau í samræmi við fjölbreyttari dagskrá. Ekki vilji hjá stjórninni til að hækka þátttökugjöldin ef hátíðin stendur undir sér með óbreyttum gjöldum. Skrifstofu falið að gera fjárhagsáætlun fyrir hátíðina og senda á stjórn til að taka megi endanlega ákvörðun um þátttökugjöld.

Frjálsíþróttaskóli
Skráning ekki alveg nógu góð, fáir krakkar miðað við metnaðarfulla dagskrá. Búið að ráða matráð, sú sama og í fyrra og árin þar áður. Við gistum í Nýung. Auk frjálsra íþrótta verður boðið uppá frisbí golf, fimleika, ringó, hláturyoga, hressileika, hesta- og bátsferð, leiklist, bogfimi og skylmingar auk þess sem krakkarnir sitja næringarfræðifyrirlestur hjá Íþrótta og heilsufræðingi.

Farandþjálfun
Fer ágætlega af stað þrátt fyrir kulda. Fengum bílsstyrk frá BVA eins og síðastliðin ár. Verðum með Bogfimi líka og fimleika þetta árið. Hefur aldrei verið jafn mikil þjálfun og þetta ár.

Sprettur Sporlangi – THE MOVIE
Vídeo verkefni í samvinnu við UMFÍ þar sem Sprettur Sporlangi, Lukkuhreindýr UÍA, heimsækir öll aðildarfélögin og prófar þær íþróttir sem undir UÍA heyra. Með honum í för er kvikmyndatökulið sem festir á filmu ævintýrinn sem hann lendir í og við birtum svo á Facebook og YouTube. Þetta er kynningarefni fyrir UÍA og aðildarfélögin sem fær svo að rúlla í kringum ULM ’17. Síðast heimsótti Sprettur Þristinn á kaffihúsaskákmót. Efnisvinnsla og klippingar eru nú í höndum Arons Steins Halldórssonar, upprenanndi kvikmyndagerðarmanns.

Sundráð UÍA
Allir þeir sem standa að sundstarfi á Austurlandi voru boðaðir á fund í byrjun mánaðarins. Á hann mættu 3 frá Hetti og einn frá Austra. Þar voru ýmis sundmál rædd, þ.a.m mótaforrit sem reynst hefur þungt í notkun, dómaraekla á austurlandi og svo meistaramót UÍA. Venjan er að halda það hvert vor, til skiptis á Norðf. og Eskif. en þetta ár var það ekki haldið (sökum áhugaleysis). Fundarmenn vildu þó halda mót sem við settum á dags. 21. júní. Enginn af þeim sem að sundstarfi standa á Austurlandi hafði samband eftir að mótið var auglýst. Í dag var hringt út og staða tekin á liðinu – hún var ekki góð og mótið blásið af.

Tour de Ormurinn
Hefur pínulítið lent undir í öllum þeim hasar sem hin verkefnin hafa verið en þar er næsta mál á dagskrá að full-klára heimasíðuna svo hægt sé að setja hana í loftið sem auglýsingu. Lögð hefur verið áhersla á að auglýsa keppnina með gjafabréfum t.d. í útsvari og hjólreiðakeppnum annarsstaðar.

Sprettur Afrekssjóður
Fundur ný afstaðinn. Úthlutun verður á sumarhátíð – vonandi yfir grilli og fáránleikum í Tjarnagarðinum.

Hjólum saman
Jötunnvélar í samstarfi við UÍA standa fyrir hjólaviðburði 30. júní nk. þar sem hjólað verður frá Jötunnvélum einhvern hring og svo þangað aftur og grillað.

Æfingabúðir í frjálsum
Þráinn og Þórdís sem ætluðu að koma og þjálfa í æfingabúðum á vegum frjálsíþróttadeildar Hattar boðuðu forföll og hefur búðunum nú verið frestað aftur.


4. Umsóknir í afrekssjóð


a. Frá Ólafi Braga Jónssyni. Sækir um 85. 000 krónur vegna þátttöku á heimsmeistaramótinu í torfæru í Noregi.
Ákveðið að styrkja Ólaf um 85.000 krónur.

b. Eysteinn Bjarni Ævarsson 
sækir um 250.000 krónur vegna þátttöku í U-20 landsliðinu í körfuknattleik sem tók þátt í Norðurlandamóti í Finnlandi.

Ákveðið að styrkja Eystein um 80.000 krónur.

5. Önnur mál

Smáþjóðaleikar
Gunnar og Hildur segja frá sinni upplifun sem sjálfboðaliðar á smáþjóðaleikunum.

Nýting UÍA á húsnæði sveitarfélagsins Fljótsdalshéraðs.
Í kjölfar viðræðna UÍA og Fljótsdalshéraðs um nýtingu UÍA á húsnæði sveitarfélagsins er skrifstofu falið að semja um framtíðarnýtingu UÍA.

Knattspyrnulið UÍA í þriðja flokki
Gerðu góða ferð Reykjavíkur þar sem þeir spiluðu tvo leiki á Íslandsmótinu í fótbolta.

Landsmót UMFÍ 50plús.
Fimm keppendur frá UÍA skráðir á Landsmóti 50plús

Ungmennaráð UMFÍ
Vigdís sagði frá starfi ungmennaráðs UMFÍ sem hún situr í og frá lokaskýrslu ráðstefnunnar Ungt fólk og lýðræði.

Fleira ekki tekið fyrir og fundi slitið kl. 20:10

Fundargerð ritaði Elsa Guðný Björgvinsdóttir.

 

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ