Vilhjálmur Einarsson er áttræður í dag, en hann er Austfirðingum og landsmönnum öllum að góðu kunnur fyrir afrek sín í þrístökki, ber þar hæðst silfurverðlaun á Ólympíuleikunum í Melbourne í Ástralíu 1956. Frjálsíþróttakappar dagsins í dag sjást gjarnan rýna aðdáunarfullir í fótspor Vilhjálms úr stökkinu mikla en sjá má fótspor, mörkuð á Vilhjálmsvelli, sem líkja eftir stökkinu sem spannaði 16,26 m.
Hið árlega Meistaramót UÍA í sundi fer fram á Eskifirði á laugardaginn. Mótið er ætlað 17 ára og yngri og búist er við keppendum frá öllum sunddeildum á starfssvæði UÍA.
Mánudaginn 2. júní bar farandþjálfari UÍA startblokkir, kastáhöld og sitt hvað fleira út í farskjóta sinn og brunaði af stað í farandþjálfun UÍA þetta sumarið.
Góð þátttaka er í verkefniu og alls verða sex staðir heimsóttir. Farandþjálfunin stendur frá 2. júní - 11. júlí en sama dag hefst Sumarhátíð UÍA og Síldarvinnslunnar, sem farandþjálfunnarkappar sumarsins mun að sjálfsögðu fjölmenna á.
Bílaverkstæði Austurlands styrkir farandþjálfun UÍA eins og undanfarin sumur með því að leggja til bíl.
Helgina 31. maí - 1. júní fer fram nýtt mót á Vilhjálmsvelli. Hreinn Halldórsson og UÍA standa saman að mótinu og er það stórkastmót sem ber nafnið Strandamaðurinn sterki.
Síðastliðna helgi fóru fram alsherjar blakdagar í Varmá, Mosfellsbæ. Þar var á dagskrá afreksbúðir fyrir ungmenni fædd á árunum 1995-2000 og meðal iðkenda voru 14 ungmenni frá Þrótti Neskaupstað. Samhliða afreksbúðunum fóru einnig fram þjálfaranámskeið og æfingar hjá A landsliðum karla og kvenna en Þróttur átti einnig fulltrúa í þeim hóp.
Síðastliðinn laugardag fór fram meistaramót UÍA í sundi á Eskifirði. Mótið var vel sótt og voru um 80 keppendur sem tóku þátt. Keppt rúmlega 50 greinum, keppendur voru á aldrinum 6-17 ára og yngri, því var mikið fjör á staðnum.
Austri sigraði stigakeppni sem fór fram milli liðana en önnur lið sem tóku þátt voru Höttur, Leiknir, Þróttur og Neisti. Sprettur sporlangi lukkudýr UÍA mætti á staðinn og sá hann um að veita yngstu sundköppunum viðurkenningu fyrir þátttöku.
Helgina 31. maí - 1. júní fer fram nýtt mót á Vilhjálmsvelli. Hreinn Halldórsson og UÍA standa saman að mótinu og er það stórkastmót sem ber nafnið Strandamaðurinn sterki. Nokkrir af fremstu kösturum landsins hafa boðað komu sína. Meðal þeirra er Óðinn Björn Þorsteinsson sem er einn fjögurra Íslendinga sem hafa varpað kúlunni yfir 20 metrana og keppti hann fyrir hönd Íslands á Ólympíuleikunum í Lundúnum.
Keppt verður í eftirfarandi greinum og flokkum á mótinu:
Kúluvarp (piltar og stúlkur 16-17 ára, piltar og stúlkur 18-19 ára og karlar og konur 20 ára og eldri) Spjótkast (piltar og stúlkur 16-17 ára, karlar og konur 18 ára og eldri) Kringlukast (piltar og stúlkur 16-17 ára, piltar og stúlkur 18-19 ára og karlar og konur 20 ára og eldri) 400 m hlaup (karlar og konur 16 ára og eldri) 200 m hlaup (karlar og konur 16 ára og eldri) Langstökk (karlar og konur 16 ára og eldri) Þrístökk (karlar og konur 16 ára og eldri)
Þátttökugjald er 500 kr á keppenda óháð greinafjölda.