Skíðafélag Fjarðabyggðar hélt Fjarðaálsmót í Oddsskarði laugardaginn 28. febrúar 2015 síðastliðinn í flottu veðri og góðum aðstæðum. Það voru rúmlega sjötíu keppendur sem tóku þátt á aldrinum 4 ára til 14 ára og komu þeir keppendur sem mættu til leiks frá Seyðisfirði, Egilsstöðum, Reyðarfirði, Eskifirði og Neskaupsstað.
Tveir Íslandsmeistaratitlar skiluðu sér austur af Meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum sem fór fram í Laugardalshöllinni um helgina. Daði Þór Jóhannsson var í fantaformi og nældi í gull í bæði þrístökki og langstökki 15 ára pilta, að auki hafnaði hann í þriðja sæti í hástökki. Mikael Máni Freysson tók silfur í hástökki pilta 16-17 ára. UÍA átti sjö keppendur á mótinu margir þeirra náðu að bæta sig á mótinu en þó setti flensuskítur sem stakk sér niður í herbúðir UÍA liðsins nokkurt strik í reikninginn.
Sundsamband Íslands heimsækir Austurland um helgina og fræðir bæði börn og fullorðna um eitt og annað sem viðkemur sundíþróttinni.
Dagskráin Sundsambandsins fer fram á Eskifirði á laugardag en þar verður Hennýjarmót á sunnudag. Jacky Pellerin landsliðsþjálfari og landsliðsmenn í sundi liðsinna þjálfurum og iðkendum en að auki munu stjórnarmenn úr SSÍ fræða foreldra um starfsemi sambandsins, mótadagskrá og eitt og annað sem gott er fyrir sundforeldra að vita. Einnig verður boðið uppá dómaranámskeið.
Framganga og framfari Ólafíu Óskar Svanbergsdóttur 12 ára sundstúlku í Þrótti, hafa vakið athygli að undaförnu enda hefur hún staðið sig vel bæði á mótum hérlendis og erlendis. Nú í febrúar síðastliðinum tók Ólafía Ósk þátt í alþjóðlegri sundkeppni fatlaðra á Malmö Open. Þar bætti hún persónulegan árangur sinn í öllum greinum og vann tvenn silfurverðlaun í 50 og 25 m skriðsundi og bronsverðlaun í 25 m baksundi.
Um síðustu helgi var Íslandsmót Fimleikasambands Íslands í hópfimleikum haldið af Gerplu í Kópavogi. Þetta er eitt stærsta mót sem Fimleikasambandið hefur haldið en á mótið voru skráðir um 800 keppendur á aldrinum 9-17 ára. Frá fimleikadeild Hattar fóru 63 keppendur. Keppendur voru á aldrinum 9-17 ára.
Öll lið fimleikadeildar Hattar eru í A-deild en á haustmóti raðast lið niður í deildir og er það okkur mikið ánægjuefni að vera í þeirri deild.
Glímufólkið okkar þau Ásmundur Hálfdán Ásmundsson og Eva Dögg Jóhannsdóttir kepptu á alþjóðlegu Backhold móti í Quimper í Frakklandi nú um helgina, með afar góðum árangri. Ásmundur sigraði þyngsta flokk karla og opinn flokk karla og Eva sigraði -70 kg kvenna og náði öðru sæti í opnum flokki kvenna. Eva var svo í mótslok kjörin besta fangbragðakona mótsins.
Æskulýðsvettvangurinn hefur í vetur verið á ferð um landið með æskulýðsráðstefnuna Komdu þínu á framfæri. Ungmennum á Austurlandi gafst kost á að koma sínu á framfæri í vikunni sem leið, er Æskulýðsvettvangurinn heimsótti fjórðunginn og fundaði með ungmennum og stjórendum annars vegar í Fjarðabyggð og hinsvegar á Fljótsdalshéraði.
Markmið ráðstefnunnar er að vetia ungu fólki tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri við þá sem bera ábyrgð á málefnum ungs fólks í viðkomandi sveitarfélögum. Viðfangsefni fundanna er skipt upp í fjóra flokka eða menntun, samfélagið mitt, æskulýðs- og íþróttamála og menningu og listir.
Æskulýðsvettvangurinn fer nú um landið með ungmennaráðstefnuna Komdu þínu á framfæri og fara tvær slíkar ráðstefnur fram hér á Austurlandi, 25. febrúar í Fjarðabyggð og 26. febrúar á Fljótsdalshéraði.
Ráðstefnan er ætluð ungu fólki (15 ára - 30 ára), og þeim aðilum sem fara með málefni ungs fólks s.s. hjá sveitarfélögum, í íþrótta- og tómstundastarfi og víðar.
Á ráðstefnunni er unnið markvisst að því að gefa ungu fólki kost á að tjá hug sinn og skoðanir á málefnum sem það varðar og skapa brú á milli þess og þeirra sem starfa að og bera ábyrgð á málefnum ungmenna.