Sambandsþingi lokið
Sambandsþing UÍA var haldið á laugardaginn 30. apríl s.l. Fámennt var en þó góðmennt, aðeins 16 fulltrúar af 127 löglegum mættu til þinghalds og er það eitthvað sem félögin þurfa að skoða. En þrátt fyrir dræma mætingu kom ýmislegt fróðlegt fram. Nokkrar tillögur fóru fyrir þing og voru allar samþykktar samhljóða. Það sem hæst ber að nefna er að meðlimum í aðalstjórn UÍA var fjölgað úr þremur í fimm. Sitjandi stjórn var endurkosin og inn í hana bættust Gunnar Gunnarsson frá Þristi og Bjarney Jónsdóttir frá Leikni. Þá var samþykkt að lækka félagsgjöld UÍA fyrir 18 ára og eldri úr 250 kr. á þáttakenda í 150 kr.Tveir gestir heiðruðu þingið með nærveru sinni, þau Birgir Gunnlaugsson frá UMFÍ og Björg Blöndal frá ÍSÍ. Fluttu þau bæði ávarp og kynntu verkefni sinna félaga. Birgir veitti tveimur einstaklingum starfsmerki UMFÍ, þeim Benedikt Jóhannssyni frá Austra og Jónu Petru Magnúsdóttur frá Súlunni.
Þá voru kynnt tvö samstarfsverkefni sem UÍA tekur þátt í. Annars vegar samning við KHB og hins vegar samning við Alcoa. Bæði þessi verkefni fela í sér stuðning fyrirtækjanna við íþrótta- og æskulýðsstarf á Austurlandi og verða kynnt nánar síðar.