Hermann Níelsson látinn
Hermann Níelsson, fyrrum formaður UÍA, lést á miðvikudag eftir erfið veikindi.
Hermann fæddist á Ísafirði í janúar 1948 en fluttist austur á land og fór að kenna íþróttir við Alþýðuskólann á Eiðum að loknu íþróttakennaranámi vorið 1968.
Hann tók strax virkan þátt í starfi UÍA og var árið 1976 ráðinn framkvæmdastjóri sambandsins. Ári síðar skipti hann um hlutverk og tók við formannsembættinu. Því gegndi hann til 1981 og aftur 82-85.
Hermann var síður en svo hættur afskiptum af íþróttamálum þótt hann léti af formennskunni. Hann sá áfram um fjölskylduhátíðir í Atlavík og Egilsstaðamaraþon.
Hann var formaður knattspyrnudeildar Hattar á Egilsstöðum og síðar formaður Harðar á Ísafirði þar sem hann beitti sér fyrir framgangi íslensku glímunnar. Hann kenndi einnig íþróttir við Menntaskólann á Ísafirði.
Hermann gegndi ennfremur trúnaðarstörfum fyrir landshreyfingarnar ÍSÍ og UMFÍ þar sem hann var í forustu í uppbyggingu almenningsíþrótta og félagsmála. Hann hlaut í haust heiðurskross ÍSÍ og gullmerki UMFÍ fyrir störf sín.
UÍA vottar fjölskyldu og aðstandendum Hermanns samúð sína.