Hermann Níelsson látinn

Hermann Níelsson, fyrrum formaður UÍA, lést á miðvikudag eftir erfið veikindi.

Hermann fæddist á Ísafirði í janúar 1948 en fluttist austur á land og fór að kenna íþróttir við Alþýðuskólann á Eiðum að loknu íþróttakennaranámi vorið 1968.

Hann tók strax virkan þátt í starfi UÍA og var árið 1976 ráðinn framkvæmdastjóri sambandsins. Ári síðar skipti hann um hlutverk og tók við formannsembættinu. Því gegndi hann til 1981 og aftur 82-85.

Hermann var síður en svo hættur afskiptum af íþróttamálum þótt hann léti af formennskunni. Hann sá áfram um fjölskylduhátíðir í Atlavík og Egilsstaðamaraþon.

Hann var formaður knattspyrnudeildar Hattar á Egilsstöðum og síðar formaður Harðar á Ísafirði þar sem hann beitti sér fyrir framgangi íslensku glímunnar. Hann kenndi einnig íþróttir við Menntaskólann á Ísafirði.

Hermann gegndi ennfremur trúnaðarstörfum fyrir landshreyfingarnar ÍSÍ og UMFÍ þar sem hann var í forustu í uppbyggingu almenningsíþrótta og félagsmála. Hann hlaut í haust heiðurskross ÍSÍ og gullmerki UMFÍ fyrir störf sín.

 

UÍA vottar fjölskyldu og aðstandendum Hermanns samúð sína.

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.
Ok