Snæfell 2014 komið út og aðgengilegt á netinu

Nýjasta tölublaði Snæfells var dreift til Austfirðinga í vikunni. Þar kennir ýmissa grasa. Farið er yfir árið hjá UÍA í máli og myndum. Aðalviðtal blaðsins er við Hermann Níelsson, fyrrum formann UÍA og íþróttakennara á Eiðum.

Hermann ræðir um hugsjónirnar í starfi UÍA, lífið á Eiðum og kjarkinn til að fara nýjar og ótroðnar slóðir í starfi sambandsins.

Af öðru efni má nefna viðtal við glímukonuna Evu Dögg Jóhannsdóttur íþróttamanns UÍA 2013, þar sem hún greinir frá því hvernig hún fór frá því að vera litla mjóa stelpan sem aldrei vann neitt yfir í að vera Evrópumeistari kvenna í glímu.  Við ræðum einnig við Þráinn Hafsteinsson um uppbyggingu frjálsíþróttastarfs á Austurlandi og Ólafíu Ósk Svanbergsdóttur efnilegra sundstelpu í Þrótti.

 

Blaðið má lesa hér

Í blaðið slæddust tvær villur sem ritstjórn Snæfells biðst innilegrar velvirðingar á og leiðréttast hér.

Í umfjöllun um framúrskarandi árangur keppenda UÍA í upplestrarkeppni á Unglingalandsmóti, var farið rangt með nafn sigurvegarans í flokki 11-14 ára sem að sjálfsögðu heitir Ragnhildur Elín Skúladóttir frá Hallormsstað, en ekki Ragnheiður eins og fram kom í blaðinu.

Í grein Telmu Ívarsdóttur knattspyrnukonu um þátttöku í landsliðsverkefnum með U-17, þykir sýnt að ritstjórn blaðsins hafi viljað gera full mikið úr stöðu hennar innan liðsins. Í blaðinu kemur eftirfarandi setning fyrir ,, Skyndilega breyttist þannig allt, upphaflegi draumurinn var að verða markaskorari en núna er ég að verða aðalmarkmaður íslenska kvennalandsliðsins. Telma sagði orðrétt: ,,Skyndilega breyttist allt, upphaflegi draumurinn var að vera markaskorari en er núna að verða aðalmarkmaður íslenska kvennalandsliðsins."

Sitthvað er draumur og veruleiki!

Greinina má lesa rétta í heild sinni hér fyrir neðan.

Telma Ívarsdóttir

„Stolt og þakklát fyrir að hafa fengið þetta tækifæri“

Ég hef mikinn áhuga á hreyfingu eða íþróttum og fótbolti hefur lengi verið mitt aðaláhugamál. Ég er 15 ára gömul en byrjaði að æfa þegar ég var 5 ára. Ég hafði alltaf spilað úti, en þegar ég var 13 ára og spilaði með 4. flokki var ég beðin að leysa af sem markmaður í 3. flokki, sem gekk bara nokkuð vel. Skyndilega breyttist allt, upphaflegi draumurinn var að vera markaskorari en er núna að verða aðalmarkmaður íslenska kvennalandsliðsins.

Í nóvember 2013 var ég boðuð á mína fyrstu landsliðsæfingu U-17 sem markvörður og við æfðum að jafnaði aðra hverja helgi á æfingatímabilinu. Þ,essu hafa því fylgt mikil ferðalög fyrir mig.

Ég hef tvisvar farið erlendis með landsliðinu. Í apríl fórum við til Belfast og spiluðum þrjá leiki við Færeyjar, Norður-Írland og Wales. Íslenska liðið stóð sig vel og við enduðum í öðru sæti, unnum Wales og Færeyjar en töpuðum fyrir Norður-Írlandi. Í nóvember fór ég til Finnlands þar sem við spiluðum tvo leiki við Finna en töpuðum báðum.

Þetta er eitt það magnaðasta sem ég hef upplifað. Ég held að það sé draumur allra íþróttamanna að fá að klæðast landsliðsbúningnum og keppa fyrir Ísland. Það er ótrúleg upplifun að standa inni á vellinum, heyra nafnið sitt lesið upp og og syngja þjóðsönginn fyrir leik, en mest af öllu er þó meiriháttar að fá að spila fótbolta.

Liðið var alltaf í fötum og æfingagöllum merktum Íslandi og KSÍ. Við fórum ekki út af hótelherbergjunum öðruvísi en að vera allar eins og með eins töskur. Það eina sem ég hefði þurft að taka með mér í þessa ferð fyrir utan takkaskó, legghlífar og hanskana voru nærföt og snyrtidót. Mér fannst fyrst skrítið að fara ein, því ég hef vanist því að mamma og/eða pabbi fari með mér. En það var virkilega vel hugsað um okkur á allan hátt í ferðunum, yndislegt fólk sem er í kringum hópinn og virkilega góð stemmning í hópnum, flott umgjörð og allt til fyrirmyndar.

Ég er mjög þakklát og stolt af því að hafa fengið þetta tækifæri. Ég hef kynnst alveg frábærum stelpum alls staðar af landinu. Ég stefni að því að halda áfram og standa mig vel. Vonandi á ég eftir að spila marga leiki og fara í margar ferðir sem fulltrúi Íslands.

 




 

 

 

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.
Ok