Formaður UÍA fékk viðurkenningu fyrir æskulýðsstarf

Gunnar Gunnarsson, formaður UÍA, hlaut nýverið viðurkenningu á vefum æskulýðsráðs fyrir starf sitt en verðlaunin voru þá afhent í fyrsta sinn.

Veittar voru viðurkenningar í þremur flokkum. Viðurkenning Gunnars var til ungs fólks sem lagt hefur alúð við þátttöku sína í æskulýðsstarfi eða nýtt reynslu síðan úr því á öðrum sviðum þjóðlífsins.

Í rökstuðningi ráðsins segir að Gunnar hafi komið „víða við í margskonar félagsstarfi innan íþrótta- og æskulýðshreyfingarinnar, tekið virkan þátt í æskulýðsstarfi á Austurlandi – í sinni heimabyggð, á landsvísu og í norðurlandasamstarfi. Auk þess hefur hann verið virkur í félagslífi á öllum skólastigum og gengt trúnaðarstörfum fyrir félagasamtök.“

Gunnar hefur verið formaður UÍA frá árinu 2012 en hann tók sæti í stjórn sambandsins árið 2005. Áður var hann formaður UMF Þristar frá 2004-2007.

Gunnar á einnig sæti í stjórn Ungmennafélags Íslands og hefur setið í ýmsum nefndum á vegum samtakanna, meðal annars varastjórn norrænu samtakanna NSU frá 2012-2014.

Í rökstuðningi ráðsins var bent á að Gunnar hefði einnig tekið þátt í störfum nemendafélaga og stjórnmálastarfi og nýtt þekkingu sína úr ungmennafélagsstarfi í atvinnulífinu.

Viðurkenning fyrir nýsköpun eða þróun í æskulýðsstarfi féll í skaut Hins hússins fyrir Músiktilraunir, sem í gegnum tíðina verið einn aðalvettvangur ungs fólks til að koma tónlist sinni á framfæri.

Þá hlaut Ólafur Proppé viðurkenningu fyrir ævistarf. Hann var prófessor og síðar rektor við Kennaraháskóla Íslands, hefur sinnt fjölmörgum trúnaðar- og forustustörfum fyrir skátahreyfinguna frá unga aldri og verið í forustu björgunarmála á Íslandi.

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ