Úrvalshópur UÍA í frjálsum heimsótti ÍR
Átta unglingar úr Úrvalshópi UÍA í frjálsum íþróttum, lögðu á dögunum land undir fót og heimsóttu ÍR. Markmið ferðarinnar var að nýta frábæra innanhússaðstöðu í Laugardalshöll, læra sitthvað nýtt af þjálfurum ÍR og æfa í stærri jafningjahópi. ÍRingarnir tóku svo sannarlega vel á móti okkar fólki, sem komst þó ekki suður fyrr en seint og um síðir vegna veðurs og ófærðar. Þjálfarar ÍR sem allt eru þekkt nöfn úr frjálsíþróttaheiminum; Hörður Gunnarsson, Þráinn Hafsteinsson, Þórdís Gísladóttir, Einar Vilhjálmsson og Pétur Guðmundsson sáu um æfingar þar sem lögð var áhersla á ýmis tækniatriði sem erfitt er að æfa við þær aðstæður sem eru í boði hér eystra. Auk æfinga buðu ÍRingarir til samverustunda þar sem farið var í ratleik, sund og út að borða.
Þrír þjálfarar héðan að austan, þær Lovísa Hreinsdóttir, Mekkin G. Bjarnadóttir og Erla Gunnlaugsdóttir fylgdu hópnum og fylgdust grannt með þjáflunaraðferðum og æfingum kollega sinna í ÍR.
Þjálfarar ÍR komu inn á það hversu góðum árangri krakkarnir hafa náð þrátt fyrir að æfa við innanhúsaðstæður sem eru miklu lakari þeim sem félagar þeirra í Reykjavík hafa aðgang að, og að UÍA krakkarnir stæðu jafnfætis þeim sem æfa við bestu aðstæður. Því það er mikilvægt fyrir krakkana að geta æft við bestu aðstæður inn á milli á veturnar til að undirbúa sig fyrir innanhúskeppnistímabilið.
Það kom líka á daginn tveim vikum seinna, er nokkurn veginn sami hópur frjálsíþróttakrakka að austan tók þátt í Silfurleikum ÍR, að hópurinn stendur framarlega á landsvísu. Um 600 keppendur voru á leikunum og þar af átti UÍA átta keppendur, og skiluðu 12 verðlaun sér austur. Árangur okkar krakka í þrístökki vakti sérstaka athygli en í þeirri grein sigruðu þeir Steingrímur Örn Þorsteinsson í flokki pilta 14 ára og Mikael Máni Freysson í flokki pilta 16-17 ára, Helga Jóna Svansdóttir nældi í silfurverðlaun í þrístökki 16-17 ára stúlkna og Daði Þór Jóhannsson í brons í flokki 14 ára pilta. Áhorfendur leikanna höfðu orð á því að það væri skemmtilegt og viðeigandi að sjá austfirsk ungmenni taka svo mörg verðlaun í þrístökki á leikum sem haldnir eru til heiðurs afreki Vilhjálms Einarssonar.