Hreyfivikan er handan við hornið.
Alþjóðleg hreyfivika, Move week er handan við hornið. Hún hefst mánudaginn 29. september og stendur til 5. október. ISCA-samtökin (International Sport and Culture Association) halda utan um verkefnið á alþjóðavísu en Ungmennafélag Íslands (UMFÍ) er aðili að samtökunum og fylgir því eftir hérlendis. Markmið vikunnar er að hvetja sem Evropubúa til að finna sér hreyfingu við hæfi og stunda hana sér til gleði og heilsueflingar.
Hér á Austurlandi er dagskráin afar fjölbreytt og glæsileg og ljóst að víða verður allt á iði þessa viku þegar íþróttafélög, frístundahópar, sveitarfélög, stofnanir og einstaklingar leggjast á eitt til að hvetja nærsamfélag sitt til hreyfingar og heilsusamlegs lífernis.
Ánægjulegt er að sjá að nýjir aðilar og sveitarfélög bætast nú í hópinn og þeir sem áður hafa verið með í verkefninu eru enn að sækja í sig veðrið og bæta við fleiri og fjölbreyttari viðburðum.
Á Seyðisfirði verður kraftmikil dagskrá alla vikuna. Huginn býður frítt á allar æfingar, leikskólabörn spreyta sig í ,,gamaldags leikjum“, frítt verður í sund og líkamsrækt, hádegisdans, útihlaup og svona mætti lengi telja.
Fljótdalshérað býður upp á umfangsmikla og fjölbreytta dagskrá. Enda horfa margir til Héraðsins þegar kemur að framkvæmd Move week, en í fyrra var Hreyfivika á Héraði valið eitt besta verkefnið í evrópsku „Move Week“ herferðinni. Vakti þar athygli hve vel gekk að fá ólíka aðila til að vinna saman að hvatningu til almennrar hreyfingar í samfélaginu.
Á Héraði í ár verða meðal viðburða kynningar á ýmsum nýstárlegu s.s. Frisbígolfi, sundleikfimi, Tabataaæfingum og línudansi. Leiks-og grunnskólabörn bregða á leik með ýmsum hætti og sama má segja um nemendur og starfsfólk Menntaskólans, íþróttafélagið Höttur býður frítt á allar æfingar, kirkjugestir ganga til messu, bókasafnið gerir bókum um hreyfingu, heilsu og hamingju hátt undir höfði, eldri borgarar bjóða gestum og gangandi að fá sér snúning, skella sér í yoga og stólaleikfimi, iðekndur hjá Örvari, íþróttafélagi fatlaðra kenna áhugasömum boccia, göngu og hlaupahópar verða á ferð og flugi og sitthvað fleira.
Fjarðabyggð tekur þátt í vikunni í fyrsta sinn í ár og er íþróttafélagið Þróttur þar í broddi fylkingar en þeir opna allar æfingar sínar og hvetja bæjarbúa að koma og spreyta sig í blaki, sundi og knattspyrnu. Auk þess verður boðið upp á göngu um snjóflóðavarnagarða, nemendur og starfsfólk í Nesskóla reyna með sér í snúsnú og frítt verður í sund í allar laugar í Fjarðabyggð laugardaginn 4.okt
Djúpivogur einnig með í fyrsta sinn í ár og býður upp á eitt og annað af því tilefni. UMF Neisti drífur foreldra með börnunum á æfingar, ævintýraganga verður um skógræktarsvæði bæjarins, grunnskólabörn bjóða bæjarbúum með í haustgöngu og
Vonandi finna sem flestir eitthvað við sitt hæfi í dagskránni og ef ekki þá hvet ég þá hina sömu eindregið til að sitja ekki með hendur í skauti heldur skapa viðburð að sínu skapi og bjóða öðrum með. Enn er hægt að slást í appelsínugulu hreyfivikubreiðfylkinguna, skrifstofa UÍA veitir nánari upplýsingar og aðstoðar á alla lund sé þess óskað.
Kæru Austfirðingar og aðrir íbúar Evrópu. Njótum hreyfivkinnar og tökum virkan þátt, vippum okkur út fyrir þægindaramman og prófum nýja hreyfingu.
Bregðum á leik og hreyfum okkur saman, ekki til þess að verða fyrst eða fremst, ekki til þess að lagfæra lögun eða línur, ekki til þess að bægja frá samviskubiti yfir kílóum eða kaloríum, heldur hreyfum okkur einfaldlega vegna þess að það er svo undur skemmtilegt.
Góðar hreyfistundir þessa viku sem aðrar.
Hér má sjá yfirlit yfir viðburði vikunnar.