Frábær fjölskylduferð á Lolla fjall UÍA 2014
Það var broshýrt og berjablátt, göngufólkið sem fikraði sig upp hlíðar Lolla, í blíðskapar veðri síðastliðinn sunnudag. En þá tóku 15 manns þátt í fjölskyldugöngu á Lolla Fjall UÍA 2014.
Lolli bar reyndar þetta sæmdarheiti einnig í fyrra og var í fyrra vor komið fyrir gestabók á toppnum. Þar sem veður voru válynd í fyrra haust og veturinn bar heldur snemma að garði, náðist ekki að fara í skipulagða göngu á toppinn til að sækja bókina. Fékk Lolli því að halda titlinum annað ár.
113 einstaklingar höfðu kvittað í gestabókina á þessum tíma, ef marka má færslur í bókina þá hefur sólin skinið glatt á Lolla þessi tvö sumur og ef hún sást ekki á himni þá var hún altént í sinni göngufólks:
,,Löbbuðum upp í fínu veðir, smá vindi og pínu rigningu en það var bara gott!"
,,Frábært veður og blíða"
,,Dýrðarveður hiti 18 stig"
,,Smá sól og lítið skýjað 4 metrar á sek. Mikið af me meeee. Stefnan er tekin á Hellisfjörð með harðfisk og mexíkostar pylsur og ferskt lækjarvatn. Maður verður að njóta vaktafrísins í SVN! :)
Þó tími Lolla sem fjalls UÍA 2014 sé á enda og gestabókin farin af toppnum, þá er vel þess virði að bregða sér upp. Ef rólega er farið og með góðum stoppum tekur gangan upp og niður um 4 tíma.
Best er að fara að fjallinu frá þjóðveginum við Skuggahlíð er ekið út malarveg, framhjá golfvellinum, í suðurhlíð Norðfjarðar að heimreiðinni að bænum Grænanesi. Þar er ágætt að leggja bíl.
Haldið er af stað upp brekkurnar og er bergstandurinn Lolli nær beint fyrir ofan Grænanes. Leiðin upp brekkurnar er auðveld yfirferðar og stefnan tekin á tindinn sem blasir við.
Gönguleið er til Hellisfjarðar innan við Lolla í Lollaskarði. Einnig er þægileg og skemmtileg gönguferð að ganga út fjallagarðinn út á Hellisfjarðarmúla og er útsýni á leiðinni ægifagurt og gott yfir byggðina í Neskaupstað.