Silfur, brons og bætingar á MÍ 15-22 ára
Meistaramót Íslands 15-22 ára fór fram á Selfossi síðastliðna helgi, UÍA átti þar fimm keppendur sem allir stóðu sig með ágætum. Átta verðlaun komu til baka austur, auk góðra bætinga og minninga af skemmtilegu móti.
Eyrún Gunnlaugsdóttir hafnaði í öðru sæti í 400 m hlaupi 15 ára stúlkna á tímanum 63,74 sek og náði þar lágmörkum í Úrvalshóp FRÍ, Eyrún vann til bronsverðlauna í spjótkasti með kasti upp á 28,45 m og í 200 m hlaupi á tímanum 28,16 sek.
Hrefna Ösp Heimisdóttir hljóp sig einnig inn í Úrvalshóp FRÍ í 400 m hlaupi í flokki stúlkna 16-17 ára, náði þar tímanum 61,55 sek og silfurverðlaunum. Hrefna hlaut brons í 200 m hlaupi á tímanum 27,35 sek.
Helga Jóna Svansdóttir varð þriðja í 100 m grindahlaupi í flokki 16-17 ára stúlkna á tímanum 16,06 sek.
Mikael Máni Freysson nældi í silfurverðlaun í 400 m grindahlaupi í flokki 16-17 ára drengja er hann kom í mark á tímanum 64,14 sek og varð þriðji í hástökki með stökki yfir 1,75 m.
Atli Pálmar Snorrason átt gott 800 m hlaup í flokki 16-17 ára drengja en hann stórbætti persónulegan árangur sinn í greininni.
Mekkin Bjarnadóttir þjálfari hópsins í ferðinni á Selfoss var að vonum ánægð með árangur krakkanna og sagði ,,bætingar og gleði hafa einkennt þátttöku UÍA hópsins á mótinu".
Næsta verkefni frjálsíþróttafólks er þátttaka í ULM á Sauðarkróki um komandi helgi.
Á meðfylgjandi mynd má sjá Eyrúnu Gunnlaugsdóttur óska Guðbjörgu Bjarkadóttur sigurvegara í 400 m hlaupi til hamingju.