Bogfimi og boðhlaup á fjórða degi Frjálsíþróttaskólans
Frjálsíþróttaskólakapparnir tókust á við fjórða dag Frjálsíþróttaskólans af sinni einstöku atorkusemi og elju og ekki veitti af því mikið var um að vera í dag. Morgunæfing dagsins stóð í tvo tíma og innihélt grindahlaup undir stjórn Sigurlaugu Helgadóttur og langstökk og leiki í umsjón Hildar.
Eftir hádegið hélt hópurinn í Hlymsdali þar sem Freyr Ævarsson lagði ýmsar skákþrautir fyrir hópinn, sem einnig spreytti sig í minigolfi. Seinni æfing dagsins var nýtt til að læra boðhlaupsskiptingar. Eftir að hafa fengið sér hressingu út í sólinni rölti hópurinn yfir í Fellabæinn og hittu þar fyrir Harald Gústafsson og Sigurgeir Hrafnkellsson bogfimikappa úr Skotfélagi Austurlands. Þeir félagar, sem fljótlega voru endurskýrðir Bogi og Örvar úr Skírnisskógi, hittu algjörlega beint í mark og hópurinn var alveg heillaður af íþróttinni og fimi þeirra félaga. Allir fengu að spreyta sig með bogann og ljóst að margar efnilegar skyttur leynast í hópnum. Þegar allir höfðu skotið nægju sína mætti Árni Ólason á svæðið í fullum júdóskrúða og kenndi nokkur grunnatrið í júdó og tuskaðist við hópinn, sem aldeilis var til í tuskið. Þegar búið var að sporðrenna kvöldmatnum fór af stað spurningakeppnin ómissandi Innsvar en Gunnar Gunnarsson formaður UÍA var spyrill, spurningahöfundur og dómari keppninnar.
Myndir dagsins má sjá á facebooksíðu UÍA