Frjálsíþróttamót og fimleikar á öðrum degi Frjálsíþróttaskólans
Frjálsíþróttaskólanemendur höfðu í nógu að snúast í dag og létu rigninguna ekkert á sig fá. Á morgunæfingu dagsins hitti hópurinn Elsu Guðný Björgvinsdóttur sem kenndi stört og spretthlaup og tók videó af hverjum og einum sem síðar voru tekin fyrir á tæknifundi dagsins. Auk þess rýndu nemendur í fótspor Vilhjálms Einarssonar og spreyttu sig í þrístökki undir leiðsögn Hildar.
Á síðari æfingu dagsins kenndi Daði Fannar Sverrisson kúluvarp og sleggjukast og sýndu nemendur góða takta. Það var ansi blautt á hópinn í dag og þegar leið á daginn voru allir ofnar í Nýung þaktir blautum sokkum og öðrum yfirhöfnum. Það var því kærkomið að koma þreytt og blaut í kaffihressingu í Nýjung en þar beið Didda ,,amma" matráður skólans með heitt kakó og kleinur. Eftir kaffi lá leiðin í íþróttahúsið þar sem Auður Vala Gunnarsdóttir tók hópinn í fimleika og kenndi hinar ýmsu kúnstir. Greinamót UÍA og HEF fór fram í kvöld og þar létu frjálsíþróttaskólanemendur sig aldeilis ekki vanta, keppt var í hástökki, kúluvarpi, spretthlaupi og 600/800 m hlaupi. Þrátt fyrir að sumir hefðu kynnst þessum greinum fyrst í dag og í gær þá stóðu sig allir með prýði, lögðu sig fram, hvöttu hvort annað og flestir komu sér skemmtilega á óvart og fóru langt fram úr væntingum sínum og vonum um árangur. Það var regnblautur en rogginn hópur sem lét fara vel um sig í heita pottinum í kvöld að móti loknu og naut þess svo að kúra sig undir sæng og horfa á mynd fyrir svefninn.