Frjálsíþróttamót og fimleikar á öðrum degi Frjálsíþróttaskólans

Frjálsíþróttaskólanemendur höfðu í nógu að snúast í dag og létu rigninguna ekkert á sig fá. Á morgunæfingu dagsins hitti hópurinn Elsu Guðný Björgvinsdóttur sem kenndi stört og spretthlaup og tók videó af hverjum og einum sem síðar voru tekin fyrir á tæknifundi dagsins. Auk þess rýndu nemendur í fótspor Vilhjálms Einarssonar og spreyttu sig í þrístökki undir leiðsögn Hildar.

 

Á síðari æfingu dagsins kenndi Daði Fannar Sverrisson kúluvarp og sleggjukast og sýndu nemendur góða takta. Það var ansi blautt á hópinn í dag og þegar leið á daginn voru allir ofnar í Nýung þaktir blautum sokkum og öðrum yfirhöfnum. Það var því kærkomið að koma þreytt og blaut í kaffihressingu í Nýjung en þar beið Didda ,,amma" matráður skólans með heitt kakó og kleinur. Eftir kaffi lá leiðin í íþróttahúsið þar sem Auður Vala Gunnarsdóttir tók hópinn í fimleika og kenndi hinar ýmsu kúnstir. Greinamót UÍA og HEF fór fram í kvöld og þar létu frjálsíþróttaskólanemendur sig aldeilis ekki vanta, keppt var í hástökki, kúluvarpi, spretthlaupi og 600/800 m hlaupi. Þrátt fyrir að sumir hefðu kynnst þessum greinum fyrst í dag og í gær þá stóðu sig allir með prýði, lögðu sig fram, hvöttu hvort annað og flestir komu sér skemmtilega á óvart og fóru langt fram úr væntingum sínum og vonum um árangur. Það var regnblautur en rogginn hópur sem lét fara vel um sig í heita pottinum í kvöld að móti loknu og naut þess svo að kúra sig undir sæng og horfa á mynd fyrir svefninn.

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.
Ok