Gleðilegt spriklandi fjörugt íþróttasumar

Þá er sumarið loksins gengið í garð og ekki annað hægt en að bjóða það velkomið, með bros á vör og vona að það sýni okkur sínar björtustu og bestu hliðar.

Það er altént ljóst að það er frísklegt og fjörugt íþróttasumar framundan og ótal viðburðir sem íþróttafólki hér eystra býðst að taka þátt í, bæði hér heima og heiman.

 

Má þar nefna að á næstu dögum verða birtar stútfullar mótaskrár frá frjálsíþróttaráði UÍA og sundráði UÍA. Hjá báðum ráðum hefst mótahald sumarsins af krafti strax í maí en frjálsíþróttaráð UÍA stendur fyrir Ávaxtamóti UÍA og Loðnuvinnslunnar fyrir 10 ára og yngri nú 1. maí og æfingabúðum undir stjórn Þráins Hafsteinssonar, fyrir 11 ára og eldri 16.-18. maí. Sundfólkið stingur sér til sunds á Vormóti Neista og Vísis á Djúpavogi 10. maí og fær sömu helgi til sín Brian Marshall með námskeið fyrir þjálfara.

Farandþjálfun rúllar af stað fyrstu dagana í júní og Frjálsíþróttaskóli UMFÍ verður á sínum stað 10.-14. júní.

Rathlaupið Bjartur í byggð verður þreytt þann 14. júní á Egilsstöðum og teikn á lofti um að Bjartur geri víðreisn og heimsækji Vopnfirðinga einnig síðar í sumar.

Nágrannar okkar í HSÞ bjóða ungmennafélögum 50 ára og eldri á Landsmót UMFÍ 50+ 20.-22. júní.

Sumarhátíð UÍA verður 11.-13. júlí fjölbreytt og fjörmikil að vanda.

Hjólreiða og þríþrautarfólk verður ekki svikið af því að heimsækja Austurland þetta sumarið en þríþrautarkeppnin Öxi fer fram 28. júní og hjólreiðakeppnin Tour de Ormurinn verður haldin 9. ágúst.

Austfirsk æska fjölmennir svo í Skagafjörðinn á Unglingalandsmót um verslunarmannahelgina.

Þetta er aðeins brota brot af þeim fjölmörgu viðburðum sem eiga eftir að gefa austfirsku íþróttasumri lit og ljóma. Viðburðaskrár aðildarfélaganna okkar eru óðum að líta dagsins ljós og vonandi rata sem flestar þeirra hingað á síðuna.

Fylgist því með og verið með!

Gleðilegt sumar.

 

 

 

 

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ