Páskaeggjamót UÍA og Fjarðasports í frjálsum: Úrslit og myndir
Páskaeggjamót UÍA og Fjarðasports í frjálsum íþróttum fór fram á Norðfirði í dag.
Leiðindaveður í morgun setti mark sitt á keppendafjölda, en þó nokkrir lögðu ekki í skafrenning á Fagradal. Engu að síður mættu keppendur til leiks frá sjö félögum; Þrótti, Hetti, Þristi, Fram, Agli rauða, Leikni og HSK.
Mótið gekk vel, enda lagði fjöldi foreldra hönd á plóginn við framkvæmd þess.
Leikgleðin var við völd en keppendur lögðu sig engu að síður alla fram enda til mikils að vinna, því gómsæt páskaegg voru í verðlaun fyrir stigahæstu einstaklinga í hverjum flokki. Keppt var í langstökki án atrennu, þrístökki án atrennu, kúluvarpi, hástökki og 100 m hlaupi.
Úrslit urðu þessi:
Í flokki pilta 11 ára sigraði Þorsteinn Ivan Bjarkason Þristi með 30 stig en Elmar Örn Svanbergsson Þrótti varð annar.
Í flokki 11 ára stúlkna varð Eva María Baldursdóttir HSK hlutskörpust með 29 stig, Ester Rún Jónsdóttir önnur með 26 stig og Ólafía Ósk Svanbergsdóttir þriðja.
Í flokki 12-13 ára pilta hafnaði Guðjón Berg Stefánsson, Þrótti í fyrsta sæti með 29 stig en Traust Dagbjartsson, Fram varð annar með 26 stig.
Í flokki 12-13 ára stúlkna bar María Bóel Guðmundsdóttir; Þrótti sigur úr býtum eftir æsispennandi keppni. María nældi sér í 28 stig en Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir, Hetti fylgdi fast á hæla hennar með 27 stig, Íris Björg Valdimarsdóttir, Þrótti varð þriðja með 20 stig.
Í flokki 14-15 ára pilta hafði Steingrímur Örn Þorsteinsson, Hetti betur með 29 stig en Daði Þór Jóhannsson Leikni varð annar með 26 stig
Í flokki 14-15 ára stúlkna sigraði Eyrún Gunnlaugsdóttir, Hetti með 28 stig, önnur varð Heiða Elísabet Gunnarsdóttir, Þrótti með 25 stig og Aðalheiður Sjöfn Helgadóttir, Hetti þriðja.
Í flokki 16 ára og eldri karla var hörð barátta um páskaeggið góða en hana sigraði Mikael Máni Freysson, Þristi með eins stigs forskoti á Ragnar Inga Axelsson, Agli rauða.
Myndir af mótinu má sjá í myndasafni UÍA hér á síðunni.