Sólríkt sambandsþing UÍA
64. Sambandsþingi UÍA fór fram í blíðskaparveðri á Djúpavogi 30. mars síðastliðinn.
35 þingfulltrúar frá 21 aðildarfélagi UÍA sóttu þing. Þingstörf gengu vel og ganglegar umræður sköpuðust um hin ýmsu málefni hreyfingarinnar.
Gunnar Gunnarsson var endurkjörinn formaður UÍA. Lítilsháttar breytingar urðu á stjórn en Sigrún Helga Snæbjörnsdóttir, Þrótti kemur aftur inn í stjórn, og leysir Sóleyju Dögg Birgisdóttir Neista þar af hólmi, en hin síðarnefnda flytur sig um set og tekur sæti í varastjórn. Gunnlaugur Aðalbjarnarson, Hetti, Jósef Auðunn Friðriksson, Súlunni og Guðrún Sólveig Sigurðardóttir, Þrótti sitja áfram í aðalstjórn. Ásamt Sóleyju Dögg sitja nú í varastjórn þau Böðvar Bjarnason, Hetti og Ásdís Helga Bjarnadóttir. Hún kemur ný inn í stjórnina og raunar inn á sambandssvæðið líka, en Ásdís Helga m.a. hefur vakið athygli og ánægju lesenda Austurfréttar þar sem hún rýnir með glöggum gestaugum nýbúans á samfélagið hér eystra.
Að venju sóttu fulltrúar landshreyfinganna okkur heim en þau Hrönn Jónsdóttir fulltrúi UMFÍ og Viðar Sigurjónsson fulltrúi ÍSÍ ávörpuðu þingið og báru því góðar kveðjur. Aukin heldur bauð heimamaðurinn Gauti Jóhannesson sveitarstjóri Djúpavogshrepps þinggesti velkomna.
Það er til siðs að heiðra sérstaklega þá sem taka hraustlega til máls og matar á þingi. Að þessu sinni var það formanni Leiknis, Steini Jónassyni, sem lá hvað mest á hjarta og steig hann oftast í pontu, en Bjarki Sigurðsson formaður Þristar fékk sér hvað ákafast á diskinn þegar hvoru tveggja kjötsúpa og kruðerí voru á dagskrá.
Hér til hliðar má sjá mynd af þeim félögum Steini kjaftaski þings og Bjarka matháki.