Æsispennandi Íslandsglíma
Framganga glímufólks UÍA hleypti gríðarlegri spennu í Íslandsglímuna sem fór fram í íþróttahúsi Kennaraháskólans í dag, í hundraðasta og fjórða skipti.
Okkar menn þeir, Sindri Freyr Jónsson og Hjalti Þórarinn Ásmundsson sáu til þess að Ármenningurinn ósigrandi Pétur Eyþórsson, sem segja má að hafi verið með Grettisbeltið í fastri áskrift, þurfti sannarlega að hafa fyrir hlutunum í þetta skiptið. Sindri Freyr lagði glímukónginn tvisvar og andrúmsloftið á þéttskipuðum áhorfendabekkjum var spennuþrungið allt til loka. Miklar sviptingar voru í úrslitaumferðunum sem urðu þrjár talsins áður en Pétur hafði sigur og hampaði Grettisbeltinu í níunda sinn. Hjalti Þórarinn hafnaði í öðru sæti og Sindri Freyr í því þriðja. Þriðji UÍA keppandinn Ásmundur Hálfdán Þórarinsson varð fimmti.
Nýkjörinn íþróttamaður UÍA Eva Dögg Jóhannsdóttir glímdi vasklega í baráttunni um Freyjumenið, hún varð þó að lúta í lægra haldi fyrir Sólveigu Rós Jóhannesdóttur, Glímufélagi Dalamanna sem sigraði Íslandsglímuna í þriðja skipti í dag. Eva Dögg varð önnur og stalla hennar Bylgja Rún Ólafsdóttir UÍA varð fimmta.
Heiðursgestur mótsins var Lárus Blöndal forseti ÍSÍ og sá hann um að afhenda keppendum verðlaun í mótslok.
Heildarúrslit mótsins má sjá hér á vef Glímusambands Íslands. Fjallað var um Íslandsglímuna í íþróttafréttum RÚV í kvöld, finna má umfjöllunina í Sarpnum á ruv.is og hefst hún á 5,28 mín íþróttafréttanna.