Sigrar á Heimsmeistaramóti fremur en að væflast um eins og gamalmenni.
Leiknismaðurinn knái Sigurður Haraldsson fór mikinn á Heimsmeistaramóti öldunga innanhúss, sem fram fór í Búdapest dagana 25.-30. mars. Sigurður hreppti þrjá heimsmeistaratitla í kringlukasti, sleggjukasti og lóðakasti í flokki 85-89 ára og hlaut silfur í spjótkasti og kúluvarpi.
Að auki sló hann fjögur Íslandsmet í sínum aldursflokki. Sigurður var annar tveggja Íslendinga sem kepptu á mótinu en Sigurður hefur allan sinn feril, sem hófst fyrir 74 árum, haldið tryggð við og keppt fyrir sitt uppeldisfélag Leikni á Fáskrúðsfirði. Viðtal við kappann birtist í sjónvarpsfréttum RÚV nú að kvöldi 1. apríl og má nálgast það í Sarpinum á vefnum ruv.is, og hefst á 21,11 mínútu fréttatímans. Þar kemur m.a. fram að hann æfi 4-5 sinnum í viku allan ársins hring ,,fremur en að væflast um eins og gamalmenni". Þeir sem vilja glöggva sig enn frekar á afrekum Sigurðar er bent á að í síðasta tölublaði Snæfells birtist ítarlegt viðtal við hann.