Bikarúrslitahelgi í blaki
Kvennalið Þróttar tekur um helgina þátt í úrslitakeppni bikarkeppninnar í blaki sem fram fer í Laugardalshöll. Þróttur tapaði fyrir HK í úrslitum í fyrra og fyrirliði liðsins viðurkennir að í því sitji „ákveðinn hefndarþorsti."„Okkur líst vel á helgina og erum orðnar ótrúlega spenntar að fá að spila í höllinni," segir Kristín Salín Þórhallsdóttir, fyrirliði Þróttar.
Liðið spilar gegn Aftureldingu í undanúrslitum klukkan 14:00 á morgun en úrslitaleikurinn á sunnudag. Í hinum leiknum mætast HK og Þróttur Reykjavík.
Bæði Afturelding og HK eru ofar en Þróttur í deildinni en Kristín segir þá stöðu ekki skipta neinu máli fyrir helgina."Bikarinn og deildin eru tvennt ólíkt og þess vegna á hún ekki að hafa nein áhrif."
Þróttur tapaði fyrir HK í æsilegum úrslitaleik í fyrra og Kristín viðurkennir að takmark helgarinnar sé að komast í úrslitin og ná fram hefndum. „Það situr vissulega í okkur og því já ákveðinn hefndarþorsti, ef svo má að orði komast."
Þróttarstúlkur hafa hitað upp fyrir leikinn síðustu daga en á síðu blakdeildarinnar á Facebook hafa birst kynningar á leikmönnum. Þær hafa síðan breyst í vinsældakosningu en máltíð er í boði fyrir tvo fyrir þann leikmann sem vinnur sér inn flest „like"
„Þetta snýst nú aðallega bara um það hver getur unnið. Það er keppnisskap í stelpunum," segir Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir.