Hreyfivika á Austurlandi

Hreyfivika UMFÍ stendur nú yfir, er verkefninu tekið fagnandi hér eystra og fjölbreyttir hreyfiviðburðir í boði víða um Austurland.

Hreyfivikan er Evrópuverkefni sem miðar af því að fá sem flesta Evrópubúa til að gefa hreyfingu og heilbrigði aukinn gaum og hvetja sem flesta til að finna sér hreyfingu við hæfi og stunda hana reglubundið.

Fljótsdalshérað, Fjarðabyggð, Seyðisfjarðarhreppur, Vopnafjarðarhreppur, Breiðdalshreppur og Fljótsdalshreppur taka þátt í verkefninu að þessu sinni og óhætt að segja að það kenni ýmissa grasa í hreyfiviðburðaflórunni hér eystra s.s. Skallatennis á Vopnafirði, Fílafótbolta og Hipp Hopp skotboltamót á Héraði, mömmu og pabba Hreysti á Seyðisfirði, frítt í sund og rækt í Fjarðabyggð, Skólahlaup í Breiðdal og fjallganga í Fljótsdal. Hér er hægt að glöggva sig enn frekar á þeim fjölmörgu viðburðum sem í boði eru. En alls eru um 80 viðburðir skipulagðir á Austurlandi í tilefni af Hreyfiviku.

UÍA tekur virkan þátt í vikunni og stendur fyrir nokkrum Hreyfivikuviðburði:

Á mánudag var Rathlaup í Selskógi í samvinnu við Fljótsdalshérað. Þar mátti sjá rathlaupara einkum af yngri kynslóðinni geysast um skóginn einbeitta á svip.

Á mánudagskvöld stóð UÍA í samstarfi við Huginn á Seyðisfirði fyrir hláturjóga og ringókynningu. Þar skapaðist afar alþjóðleg og skemmtileg stemming en þátttakendur voru frá fimm löndum og úr þrem heimsálfum. Mikið hlegið og mögnuð tilþrif í ringó.

Á þriðjudag stóð til að fara á Vopnafjörð með víðavangshlaup, en Vopnfirðingar taka nú í fyrsta sinn þátt í Hreyfiviku og það af svo miklum krafti að ekki fannst tími í dagskránni fyrir UÍA viðburð, hann verður því bara haldinn síðar.

Á fimmtudag stendur ungmennhópurinn sem fór fyrir skemmstu í ungmennaskiptaverkefni UÍA til Ungverjalands fyrir leikjahádegi í ME.

Á föstudag stendur UÍA í samstarfi við Leikni fyrir ringókynningu á splunkunýjum strandblakvelli á Fáskrúðsfirði. Kynningin hefst kl 17:00 og eru allir velkomnir.

Á laugardag verður Fjölskylduganga á Laugarfell fjall UÍA 2015 í samvinnu við UMF Þrist.

Gengið verður frá Hostel Laugarfelli kl 11:00. Um er að ræða 6 km hring á fjallið.  Byrjað er að ganga austan megin við brúnna yfir Laugaránna og gengið er að Slæðufossi og þaðan er gengið upp á Laugarfellið. Þaðan er gengið niður af því sunnan megin og liggur leiðin að yfirlitsmynd sem Landsvirkjun gerði en þetta er panorama mynd með nöfnum staða sem sjást frá henni. Þaðan er gengið að Vind refnum sem er skúlptúr og er svipað og vindhreindýrið sem er hjá afleggjaranum að Laugarfelli.

Þaðan er gengið aftur að Slæðufossi en farið er fyrir neðan Laugarfell.

Upplagt að láta líða úr sér í laugunum á eftir.

Við hvetjum alla til að kynna sér þá viðburði sem í boði eru og taka þátt sér til gleði og gagns.

Gleðilega Hreyfiviku!

 

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ