,,Líður eins og ráðherrum að bjarga jörðinni'' | Ungmennavika NSU
Þessa vikuna fer fram árleg ungmennavika NSU í Karenhøj í Danmörku en í ár er þemað play 4 the planet - Norden redder jorden. Í þessu verkefni á UÍA þrjá fulltrúa af 13 manna hóp frá íslandi, þau Rebekku Karlsdóttur, Emmu Líf Jónsdóttur og Kristján Ríkarðsson. Alls eru þáttakendur í kringum 40 og koma frá Danmörku, Noregi, Finnlandi, Þýskalandi og Eistlandi.
Þegar Rebekka Karlsdóttir, einn fulltrúi UÍA, var spurð hvað hefði komið sér mest á óvart varðandi ferðina stóð ekki á svari.
,,Það er margt búið að koma mér á óvart, en ekkert okkar vissi ekki almennilega hvað við værum að fara að gera hérna. Við erum búin að gera ótrúlega fjölbreytta hluti, eins og fara á kajak og smíða fleka, allskonar ratleiki, klifra og síga niður byggingar um miðja nótt, prófa bogfimi, fara á ströndina, borða engisprettur og fullt fleira! Í gærnótt fórum við svo í svaka óvissuferð og vorum ekki farin að sofa fyrr en 5!
Svo fór líka einn dagur í ,,loftslagsráðstefnu" þar sem okkur var skipt niður eftir löndum og við áttum að vinna saman að því að draga úr útblæstri CO2 og bjarga þannig jörðinni. Ég var líka hissa hvað það er ótrúlega vel haldið utan um þetta allt saman en umgjörðin í kringum þetta er mjög flott og þá sérstaklega ,,loftslagsráðstefnan" en þar leið okkur eins og við værum í alvörunni ráðherrar okkar landa að bjarga jörðinni. Þetta þema hefur svo verið fléttað vel inní allt sem við gerum. Það sem er samt búið að koma mér mest á ovar var í gær þegar þau komu með lifandi hænur í kvöldmatinn og við áttum svo að sjá um rest. En í heildina er þetta búið að vera mjög skemmtileg reynsla. Ég er búin að kynnast fullt af fólki, bæði íslensku og erlendu og prófa fullt af nýjum hlutum.“
Heimferð er áætluð á morgun en það er augljóst að svona ferðir eru mikið ævintýri fyrir þá sem taka þátt. Nú er opið fyrir umsóknir í samvinnuverkefni UÍA og ungmennafélags í Ungverjalandi en UÍA mun senda 12 manna hóp þangað um miðjan september. Kynntu þér málið hér.