Heiðranir á Sambandsþingi UÍA

65. Sambandsþing UÍA fór fram á Hallormsstað síðastliðinn laugardag, að vanda voru þar veitt ýmis heiðursmerki fyrir ötult starf í þágu æskulýðs og íþróttamála í fjórðungnum.

 

Starfsmerki UÍA hlutu þau:

Bjarki Sigurðsson, Þristi. Bjarki hefur verið formaður Þristar síðustu fjögur ár og sat í stjórn þar á undan. Það var reyndar ekki hans fyrsta skipti í stjórninni því þar sat hann fyrst eftir að félagið var stofnað fyrir rúmum 20 árum. Þá hefur hann gegnt trúnaðarstörfum fyrir UÍA, verið í frjálsíþróttaráði og verið greinastjóri í langstökki á Sumarhátíð og ULM.

Magnhildur Björnsdóttir Þristi. Magnhildur líkt og öll hennar fjölskylda, voru um árabil máttarstólpar í starfi UMF Þristar og lögðu hönd á plóg nánast hvar sem þurfti. Dæmi um það er eftirminnileg boðhlaupskeppni Sumarhátíðar á Eiðum þar sem Magnhildur var meðal þeirra sem mönnuðu sveit Þristar í harðri stigakeppni.

Skúli Björnsson og Þórunn Hálfdánardóttir Þristi, en þau hafa um árabil verið máttarstólpar í félagsstarfi Þristar. Skúli sat um tíma í stjórn og var leiðandi í byggingu íþróttavallarins auk þess að þjálfa körfubolta. Þórunn hefur á móti verið skoðunarmaður reikninga svo lengi sem menn muna og verið ötull þátttakandi í ýmsu starfi félagsins svo sem badmintoni og hefðarmannakrikketi.

Gunnlaugur Aðalbjarnarson og Jóney Jónsdóttir Hetti. Jóney var um tíma formaður frjálsíþróttadeildar Hattar og sat í frjálsíþróttaráði UÍA en Gunnlaugur hefur verið gjaldkeri UÍA frá 2011 og bæði hafa þau verið liðtækir sjálfboðaliðar á Sumarhátíð og frjálsíþróttamótum UÍA.

Guðrún Sólveig Sigurðardóttir, Þrótti er ein af þeim sem alltaf er hægt að leita til og treysta á að verkin séu unnin á fagmannlegan hátt. Hún hefur lengi unnið innan blakdeildar Þróttar, setið í stjórn og verið fararstjóri. Hún kom að uppbyggingu frjálsíþróttadeildar hjá félaginu, sat í frjálsíþróttaráði UÍA og loks stjórn UÍA síðustu tvö ár.


Björg Jakobsdóttir stjórnarmaður í UMFÍ afhenti þeim Gunnlaugi Aðalbjarnarsyni og Sigurði Aðalsteinssyni starfsmerki UMFÍ. En báðir eiga þeir að baki langt og farsælt starf hreyfingunni til heilla.

Gunnlaugur hefur eins og fram hefur komið verði gjaldkeri UÍA undanfarin fjögur ár. Þar með er þó ekki öll sagan sögð. Áður en hann kom austur var hann framkvæmdastjóri UNÞ í lok níunda áratugarins auk þess sem hann hefur gegnt trúnaðarstörfum fyrir UMFÍ en hann sat nýverið í nefnd um endurskoðun reglugerðar um Unglingalandsmót en þar áður í bæði ritnefnd Skinfaxa og tölvunefnd.

Sigurður hóf einnig afskipti af félagsmálum ungur að árum. Sigurður starfaði af krafti að íþrótta- og æskulýðsmálum í sinni heimasveit, Jökuldal, en varð síðan formaður UÍA árin 1990-1995 og í stjórn og varastjórn UMFÍ 1995-2001. Sem slíkur var hann skipaður fulltrúi UMFÍ í landsmótsnefnd árið 2001 en á því móti sigraði hann í starfshlaupi sem hefur löngum verið hans aðalgrein. Þá má einnig nefna að hann keppti fyrir UÍA á landsmóti 50+ síðasta sumar í skotfimi.

 

Hafsteinn Pálsson afhenti Silfurmerki ÍSÍ þeim Óttari Ármannssyni og Hafsteini Jónassyni fyrir kraftmikið íþrótta- og uppbyggingarstarf.

Óttar hefur lengi verið ein af driffjöðrunum í íþróttastarfi Hattar á Egilsstöðum. Á keppnisárum sínum í knattspyrnu var hann þekktur sem „Austfjarðahraðlestin.“ Hann var formaður frjálsíþróttadeildar Hattar og starfaði á vettvangi frjálsíþróttaráðs UÍA en gerðist síðar formaður knattspyrnudeildar Hattar.

Hafsteinn hefur verið burðárás í austfirskum körfuknattleik áratugum saman og það var því vel við hæfi að veita honum silfurmerki ÍSÍ nú, eftir að Höttur hefur tryggt sér sæti í úrvalsdeild karla í körfuknattleik.  Hafsteinn settist sextán ára gamall í stjórn Samvirkjafélags Eiðaþinghár þar sem hann sat í átta ár sem formaður, ritari og gjaldkeri. Hafsteinn hefur setið í bæði knattspyrnu- og körfuknattleiksráðum UÍA. Þá sat hann í stjórn Hattar og var þar ritari og síðan formaður. Þá var hann greinastjóri á Unglingalandsmótinu 2011 og starfaði að Landsmóti UMFÍ á Egilsstöðum árið 2001.

Við óskum öllu þessu heiðursfólki til hamingju með viðurkenningarnar og þökkum fyrir þeirra góðu störf.
Myndir af viðurkenningarhöfum má sjá á facebooksíðu UÍA.

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ