Ný andlit í stjórn UÍA
65. Sambandsþing UÍA fór fram á Hallormsstað síðastliðinn laugardag.
34 fulltrúar frá 21 aðildarfélagi UÍA mættu til þings, sem var bæði starfsamt og gott. Gagnlegar umræður sköpðust um ýmis mál innan hreyfingarinnar og fram komu spennandi tillögur um ýmsis verkefni austfirsku íþróttastarfi til framdráttar.
Nokkrar mannabreytingar urðu í stjórn sambandsins á þinginu. Gunnar Gunnarsson, Þristi var endurkjörinn formaður UÍA, en þau Gunnlaugur Aðalbjarnarson Hetti, og Þróttarkonurnar Guðrún Sólveig Sigurðardóttir og Sigrún Helga Snæbjörnsdóttir létu af störfum í aðalstjórn og þau Ásdís Helga Bjarnadóttir, Freyfaxa og Böðvar Bjarnason, Hetti sögðu sig frá varastjórn. Vel tókst að manna nýja stjórn en í aðalstjórn sitja nú ásamt Gunnari, Jósef Auðunn Friðriksson Súlunni, Elsa Guðný Björgvinsdóttir Ásnum, Reynir Zoéga, Brettafélagi Fjarðarbyggðar og Pálína Margeirsdóttir Leikni. Í varastjórn eru þau Auður Vala Gunnardsóttir Hetti, Sóley Dögg Birgisdóttir Neista og Hlöðver Hlöðversson Þrótti.
Að venju sóttu fulltrúar landshreyfinganna UMFÍ og ÍSÍ okkur heim í tilefni af þingi Björg Jakobsdóttir UMFÍ og Hafsteinn Pálsson ávörpuðu þingið og báru því góðar kveðjur. Að auki tóku fulltrúar sveitarfélaganna Fljótsdalshéraðs og Fljótsdalshrepps, þau Óðinn Gunnar Óðinsson atvinnu-, menningar- og íþróttafulltrúi Fljótsdalshéraðs og Gunnþórunn Ingólfsdóttir oddviti Fljótsdalshrepps til máls og buðu þinggesti velkomna á Hallormsstað.
Tvö ný aðildarfélög voru boðin formlega velkomin í UÍA, Skotmannafélag Djúpavogs og Brettafélag Norðfjarðar.
Sem fyrr voru heiðraðir þeir einstaklingar sem þóttu skara framúr hvað varðaði framgöngu í ræðustól og við matarborðið. Mathákur þings að þessu sinni var Roy Heorn frá Boltafélagi Norðfjarðar en Stefán Már Guðmundsson Þrótti var valinn kjaftaskur þings.
Sviðmyndir frá þinginu má sjá á facebook síðu UÍA.