Eva Dögg Glímudrotting Íslands 2015
Íslandsglíman fór fram fyrir fullu húsi á Reyðarfirði í gær. Ljóst var að keppni yrði spennandi og ný nöfn yrðu skráð á Freyjumen og Grettisbelti þar sem sigurvegarar síðustu ára mættu ekki til leiks. Framganga austfirsks glímufólks var afar glæsileg og kætti áhorfendur á heimavelli.
Eva Dögg Jóhannsdóttir UÍA vann Freyjumenið fyrst austfirskra kvenna og liðsfélagar hennar Bylgja Rún Ólafsdóttir og Bryndís Steinþórsdóttir höfnuðu í öðru og þriðja sæti. Það var því glæsileg UÍA breiðfylking á verðlaunapalli. Eva Dögg vann einnig Rósina fyrir fallegustu glímurnar.
Sindri Freyr Jónsson sem alinn er upp í UÍA en skipti nýverið yfir í KR hreppti Grettisbeltið, Ásmundur Hálfdán Ásmundarson UÍA varð annar og Magnús Karl Ásmundsson sem einnig sleit barnsskónum í UÍA en hefur nýlega flutt yfir í KR varð þriðji.
Við óskum austfirsku glímufólki hjartanlega til hamingju með árangurinn.