Bjóðurm Brettafélagið í Fjarðabyggð velkomið í UÍA
Nýtt aðildarfélag bættist nú á dögunum undir hatt UÍA og bjóðum við Brettafélag Fjarðabyggðar velkomið í hópinn.
Hér er smá kynning á félaginu og starfi þess sem Birgir Tómasson formaður Brettafélagsins sendi okkur:
Í desember 2012 var stofnuð Snjóbrettadeild innan Skíðafélags Fjarðabyggðar (SFF). Undir merkjum SFF
starfað deildin í 2 ár eða þar til í desember 2014, þegar meirihluti stjórnar SFF ályktaði um að leggja niður
snjóbrettadeildina innan SFF og lagði til að stofnað yrði nýtt félag. Félagið fékk nafnið Brettafélag
Fjarðabyggðar.
Frá upphafi, fyrst innan SFF og svo sem Brettafélag Fjarðabyggðar (BFF) hefur æfingum verið haldið úti fyrir
börn og ungmenni frá aldrinum 6 til 19 ára. Hefur félagið verið með tvo þjálfara að jafnaði, að störfum yfir
æfinga tímabilið. Megin markmið Brettafélagsins er að gefa jafnt börnum sem fullorðnum tækifæri á að
kynnast þessari skemmtilegu íþrótt.
Hafa krakkarnir innan félagsins farið á tvö til þrjú snjóbrettamót á vetri og hafa á þeim sýnt mjög góðan
árangur, bæði í stelpna og stráka flokkum, hafa krakkarnir unnið bæði til titla bæði á bikarmótum og
Andrésar Andar leikunum. Við höfum því miður ekki enn getað haldið okkar eigin mót vegna aðstöðuleysis,
en innan skamms verður bætt úr því.
Í janúar 2015 fór félagið með 13 iðkendur ásamt þjálfara og nokkrum foreldrum til skíðasvæðisins
Obertauern í Austuríki, til æfinga við snjóbrettaskóla Blue-tomato. Þessi skóli er virtur í brettaheiminum og
er einn af fáum skólum sem kenna eingöngu á snjóbretti. Allir skemmtu sér konunglega og fengu
krakkarnir mjög góða þjálfun. Greinilegar framfarir voru hjá öllum hópnum sem sótti skólann.
Ásamt því að halda úti æfingum þá hefur BFF einbeitt sér að því að bæta aðstöðu fyrir brettaiðkendur á
skíðasvæðinu í Oddsskarði. Tímamót urðu þegar félagið fékk í byrjun árs, styrk uppá tvær og hálfa milljón
frá Fjarðabyggð, sem greiddar verða út á næstu fimm árum, til kaupa á boxum og öðrum hlutum sem
nauðsynlegir er til að geta útbúið góða æfinga og keppnisbraut. Þar sem styrkurinn hljóðaði uppá fimm ára
fjármögnun var leitað til Samvinnufélags Útgerðarmanna í Neskaupsstað (SÚN) um fjármögnun
verkefnisins. Tókust samningar við SÚN, án alls aukakostnaðar. Stefnt er að því að þessi búnaður verði
kominn upp um mitt tímabil, veturinn 2015. Þessi styrkur til áhaldakaupa gefur okkur möguleikann
á að veita krökkunum okkar betri æfinga aðstöðu ásamt því að geta boðið uppá mót og þar með öðrum
félögum til þátttöku. Einnig eflist snjóbrettaíþróttin í heild sinni á Austurlandi og gefur svæðinu aukið
aðdráttarafl fyrir brettaiðkendur. Stefnt er á að vera með nokkra viðburði á hverju ári. Því horfum við björtum
augum til framtíðar.