Daði Þór Íslandsmeistari í langstökki og þrístökki
Tveir Íslandsmeistaratitlar skiluðu sér austur af Meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum sem fór fram í Laugardalshöllinni um helgina. Daði Þór Jóhannsson var í fantaformi og nældi í gull í bæði þrístökki og langstökki 15 ára pilta, að auki hafnaði hann í þriðja sæti í hástökki. Mikael Máni Freysson tók silfur í hástökki pilta 16-17 ára. UÍA átti sjö keppendur á mótinu margir þeirra náðu að bæta sig á mótinu en þó setti flensuskítur sem stakk sér niður í herbúðir UÍA liðsins nokkurt strik í reikninginn.
Árangur Daða Þórs, hefur vakið verðskuldaða athygli en hann var einnig sigursæll á Stórmóti ÍR fyrir nokkrum vikum. Daði er búsettur á Reyðarfirði en þar er ekki formlegt frjálsíþróttastarf á veturnar, hann kemur því vikulega til Egilsstaða til að sækja æfingar með frjálsíþróttadeild Hattar. Aðstaðan sem frjálsíþróttaiðkendur búa við á höfðuborgarsvæðinu er mun betri en þekkist hér og því einstaklega gaman að sjá frjálsíþróttafólkið okkar blómstra á mótum syðra.