Stórgóð ferð á Stórmót ÍR
Stórmót ÍR fór fram síðastliðna helgi í Laugardalshöllinni í Reykjavík. Mótið ber svo sannarlega nafn með rentu enda eitt fjölmennasta frjálsíþróttamót landsins, en um 800 keppendur tóku þátt. UÍA átti sjö keppendur á mótinu og óhætt að segja að þeir hafi staðið sig með sóma. Leiknismaðurinn knái Daði Þór Jóhannsson var í banastuði um helgina, bætti árangur sinn í flestum greinum og rataði oftar en ekki á verðlaunapall. Daði keppir í flokki 15 ára pilta og hreppti gull í langstökki og þrístökki, silfur í hástökki og brons í 60 m og 400 m hlaupum, Steingrímur Örn Þorsteinsson jafnaldri hans nældi í silfur í langstökki, Hrefna Ösp Heimisdóttir vann til silfurverðlauna í 400 metra hlaupi 16-17 ára stúlkna og Mikael Máni Freysson hreppti silfur í hástökki 16-17 ára pilta.
Á mótinu var boðið upp á þá skemmtilegu nýjung að veita viðurkenningu fyrir mestu bætingu í hverri grein, okkar fólk var áberandi þar eins og á verðlaunapöllunum. Daði Þór hlaut viðurkenningar fyrir bestu bætingar í 400 m hlaupi (bæting um 3,78 sek), hástökki (bæting um 8 cm) og 60 m grindahlaupi (bæting um 0,54 sek) , Atli Pálmar Snorrason fyrir bætingu í 400 m hlaupi (1,35 sek) og Mikael Máni Freysson fyrir bætingu í langstökki (bæting um 61 cm). Öðrum keppendum UÍA vegnaði einnig vel og flestir bættu árangur sinn.
Lovísa Hreinsdóttir þjálfari frjálsíþróttadeildar Hattar fygldi krökkunum suður og var bæði stolt og ánægð með árangur þeirra ,,það er bara frábært hvað við eigum flotta krakka sem eru að veita þeim, sem æfa við bestu aðstæður, verðuga keppni. Það verður gaman að fylgjast með þeim á MÍ seinna í febrúar." sagði Lovísa að móti loknu.
Hér má sjá þá félaga Steingrím Örn og Daða Þór á verðlaunapalli fyrir langstökk, ásamt Daníel Inga Egilssyni í FH.