Hrafnkell hampaði Launaflsbikarnum eftir vítakeppni – MYNDIR

Fagnað var frameftir nóttu á Breiðdalsvík eftir að leikmenn Hrafnkels Freysgoða komu heim með Launaflsbikarinn. Liðið vann hann eftir æsilegan úrslitaleik gegn Boltafélagi Norðfjarðar á Eskifjarðarvelli þar sem vítaspyrnukeppni þurfti til að skera úr um úrslitin.

Boltafélagsmenn urðu fyrri til að skora þegar Elvar Ingi Þorsteinsson komst í gegnum vörn Hrafnkels strax á fjórðu mínútu. Hrafnkelsmenn hristu áfallið fljótt af sér og Steinar Smári Hilmarsson jafnaði metin á tólfu mínútu.

Markamaskínan Dobrycky Norbert hljóp af sér vörn BN á 27. mínútu og skoraði sitt tuttugasta mark í sumar. Sú forusta entist skammt því Skúli Skúlason jafnaði mínútu síðar. Besta færið það sem eftir var hálfleiksins áttu BN menn þegar skot þeirra fór í þverslá.

Eftir glæsilega skyndisókn á 72. mínútu kom Baldur Jónsson Hrafnkeli yfir á ný. Hrafnkelsmenn stóðu síðan með pálmann í höndunum þegar dæmd var vítaspyrna á 74. mínútu fyrir hendi. Ívar Sæmundsson, markvörður BN, varði spyrnu Snjólfs Gunnarssonar. Í baráttunni eftir frákastið braut miðvörðurinn Kjartan Bragi Valgeirsson af sér og fékk tíu mínútna brottvísun. Þann liðsmunn nýttu BN menn sér til að jafna en það gerði Hafþór Sigurðsson á 76. mínútu.

Hrafnkelsmenn skutu tvisvar í stöngina það sem eftir var leiks, þar af Norbert á ferðinni skömmu fyrir leikslok í fínu færi. Skot hans var svo fast að markið skalf lengi á eftir en boltinn skaust lengst út á völl. Ekkert mark var skorað í framlengingunni og því gripið til vítaspyrnukeppni.

Hrafnkelsmenn tóku fyrstu spyrnuna sem fór í markið. Önnur spyrna þeirra fór hins vegar í þverslána og út. Norðfirðingar gátu því tryggt sér sigurinn þegar kom að fimmtu spyrnunni en hana varði Natan Leó Arnarsson, markvörður Hrafnkelsmanna.

Dramatíkin hélt áfram í bráðabananum þegar spyrna leikmanns BN fór í þverslána og niður. Breiðdælingar töldu hana úti og hlupu inn á völlinn og fögnuðu gífurlega. Á meðan kom í ljós að boltinn hafði farið yfir línuna og því skorað mark. Norðfirðingar fögnuðu en Hrafnkelsmenn gengu sneyptir aftur af velli.

Stemmningin í herbúðum liðanna snérist aftur fljótt við þegar Natan varði sjöundu spyrnu Norðfirðinga.

Snjólfur Gunnarsson og Hrafnkell Hannesson, reynsluboltarnir í liði Hrafnkels, tóku við titlinum en Snjolfur hefur unnið keppnina þrjú ár í röð með þremur mismunandi liðum: UMFB, Spyrni og nú Hrafnkeli. Flestir leikmanna Hrafnkels eru búsettir í Breiðdals- og Djúpavogshreppum en nokkrir í Fjarðabyggð. Boltafélag Norðfjarðar varð í öðru sæti keppninnar fjórða árið í röð.

Dobrycky Norbert, framherji Hrafnkels, fékk verðlaun sem markahæsti leikmaður keppninnar en hann skoraði 20 mörk í sumar. Hann var einnig valinn besti leikmaðurinn af forráðamönnum liðanna í keppninni.

Sjö lið af öllu Austurlandi tóku þátt í keppninni í ár og tefldu þau fram samtals 260 leikmönnum. Boltafélag Norðfjarðar var efst eftir deildarkeppnina en Hrafnkell í öðru sæti.

Magnús Helgason, forstjóri Launafls og Elín Rán Björnsdóttir, formaður UÍA, afhentu verðlaunin.

 

Myndir úr leiknum.

Leikskýrsla leiksins.

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.
Ok