Hrafnkell hampaði Launaflsbikarnum eftir vítakeppni – MYNDIR
Fagnað var frameftir nóttu á Breiðdalsvík eftir að leikmenn Hrafnkels Freysgoða komu heim með Launaflsbikarinn. Liðið vann hann eftir æsilegan úrslitaleik gegn Boltafélagi Norðfjarðar á Eskifjarðarvelli þar sem vítaspyrnukeppni þurfti til að skera úr um úrslitin.
Boltafélagsmenn urðu fyrri til að skora þegar Elvar Ingi Þorsteinsson komst í gegnum vörn Hrafnkels strax á fjórðu mínútu. Hrafnkelsmenn hristu áfallið fljótt af sér og Steinar Smári Hilmarsson jafnaði metin á tólfu mínútu.
Markamaskínan Dobrycky Norbert hljóp af sér vörn BN á 27. mínútu og skoraði sitt tuttugasta mark í sumar. Sú forusta entist skammt því Skúli Skúlason jafnaði mínútu síðar. Besta færið það sem eftir var hálfleiksins áttu BN menn þegar skot þeirra fór í þverslá.
Eftir glæsilega skyndisókn á 72. mínútu kom Baldur Jónsson Hrafnkeli yfir á ný. Hrafnkelsmenn stóðu síðan með pálmann í höndunum þegar dæmd var vítaspyrna á 74. mínútu fyrir hendi. Ívar Sæmundsson, markvörður BN, varði spyrnu Snjólfs Gunnarssonar. Í baráttunni eftir frákastið braut miðvörðurinn Kjartan Bragi Valgeirsson af sér og fékk tíu mínútna brottvísun. Þann liðsmunn nýttu BN menn sér til að jafna en það gerði Hafþór Sigurðsson á 76. mínútu.
Hrafnkelsmenn skutu tvisvar í stöngina það sem eftir var leiks, þar af Norbert á ferðinni skömmu fyrir leikslok í fínu færi. Skot hans var svo fast að markið skalf lengi á eftir en boltinn skaust lengst út á völl. Ekkert mark var skorað í framlengingunni og því gripið til vítaspyrnukeppni.
Hrafnkelsmenn tóku fyrstu spyrnuna sem fór í markið. Önnur spyrna þeirra fór hins vegar í þverslána og út. Norðfirðingar gátu því tryggt sér sigurinn þegar kom að fimmtu spyrnunni en hana varði Natan Leó Arnarsson, markvörður Hrafnkelsmanna.
Dramatíkin hélt áfram í bráðabananum þegar spyrna leikmanns BN fór í þverslána og niður. Breiðdælingar töldu hana úti og hlupu inn á völlinn og fögnuðu gífurlega. Á meðan kom í ljós að boltinn hafði farið yfir línuna og því skorað mark. Norðfirðingar fögnuðu en Hrafnkelsmenn gengu sneyptir aftur af velli.
Stemmningin í herbúðum liðanna snérist aftur fljótt við þegar Natan varði sjöundu spyrnu Norðfirðinga.
Snjólfur Gunnarsson og Hrafnkell Hannesson, reynsluboltarnir í liði Hrafnkels, tóku við titlinum en Snjolfur hefur unnið keppnina þrjú ár í röð með þremur mismunandi liðum: UMFB, Spyrni og nú Hrafnkeli. Flestir leikmanna Hrafnkels eru búsettir í Breiðdals- og Djúpavogshreppum en nokkrir í Fjarðabyggð. Boltafélag Norðfjarðar varð í öðru sæti keppninnar fjórða árið í röð.
Dobrycky Norbert, framherji Hrafnkels, fékk verðlaun sem markahæsti leikmaður keppninnar en hann skoraði 20 mörk í sumar. Hann var einnig valinn besti leikmaðurinn af forráðamönnum liðanna í keppninni.
Sjö lið af öllu Austurlandi tóku þátt í keppninni í ár og tefldu þau fram samtals 260 leikmönnum. Boltafélag Norðfjarðar var efst eftir deildarkeppnina en Hrafnkell í öðru sæti.
Magnús Helgason, forstjóri Launafls og Elín Rán Björnsdóttir, formaður UÍA, afhentu verðlaunin.