Ný stjórn UMF Ássins
Kynslóðaskipti urðu í stjórn UMF Ássins sem var kjörin á aðalfundi félagsins sem haldinn var í Brúarásskóla í gær. Eiríkur Þorri Einarsson er nýr formaður félagsins.
Auk Eiríks eru í nýju stjórninni Margrét Dögg Guðgeirsdóttir, Elín Káradóttir, Gunnþór Jónsson og Elín Adda Steinarsdóttir en til marks um kynslóðaskiptin má nefna að móðir Elínar Öddu var gjaldkeri fráfarandi stjórnar. Enginn í gömlu stjórninni, sem setið hafði frá árinu 2003, gaf kost á sér áfram. Varamenn í stjórn eru Sigríður Sigurðardóttir og Stefán Fannar Steinarsson.
Hugur er í félögum í Ásinum sem hafa ráðist í gerð grasvallar fyrir knattspyrnuæfingar sem Gunnþór stýrir. Aðstaða þeirra er annars í Brúarási.
Í skýrslu fráfarandi stjórnar, sem Halldóra Eyþórsdóttir formaður flutti, kom fram að félagið hefði meðal annars á undanförnum árum stutt við íþróttaskóla í Brúarási, fjölskylduskemmtun á þrettándanum í Brúarási og gefið körfur í íþróttahúsið þar.