Endurgreiðslur úr Íþróttaslysasjóði skertar um helming
Endurgreiðslur úr Íþróttaslysasjóði hafa verið skertar úr 80% í 40%. Ástæðan er skert framlag heilbrigðisráðuneytisins, fleiri umsóknir og aukinn kostnaður.
Árið 2002 var undirritað samkomulag milli ÍSÍ og heilbrigðisráðuneytisins um að sambandið sæi um sjóðinn sem endurgreiðir iðkendum innan raða ÍSÍ sjúkrakostnað vegna íþróttaslysa.
Síðan hafa iðkendur, 16 ára og eldri, getað sótt um 80% endurgreiðslu á sjúkrakostnaði.
Sjóðurinn er rekinn á föstu, árlegu framlagi frá heilbrigðisráðuneytinu. ?rin 2002-09 var það 20 milljónir króna en var skert um 1,2 milljónir á fjárlögum 2010.
Í bréfi sem framkvæmdastjórn ÍSÍ sendi sambandsaðilum í dag kemur fram að frá haustinu 2008 hafi umsóknum í sjóðinn fjölgað og kostnaður við læknisþjónustu og sjúkraþjálfun aukist. Í ljós hafi komið að ekki væri hægt að reka sjóðinn við þær aðstæður sem komnar voru upp.
Til að bregðast við þessu hefur stjórnin samþykkt að lækka endurgreiðsluhlutfallið í 40%, í von um að geta afgreitt allar umsóknir ársins 2009.
Endurgreiðsluhlutfallið verður skoðað mánaðarlega með tilliti til fjölda umsókna í sjóðinn og mögulega lækkað enn frekar.
Rætt verður við heilbrigðisráðuneytið í haust um framtíð sjóðsins. Afgreiðslum umsókna vegna slysa í ár hefur verið frestað þar til nánari upplýsingar liggja fyrir um framtíð sjóðsins.