Ný stjórn Golfklúbbs Eskifjarðar
Ný stjórn var kjörin á aðalfundi Golfklúbbs Eskifjarðar í gærkvöldi. Á fundinum var samþykkt að hætta starfsemi félagsins þegar gengið hefur verið frá þeim málum sem standa út af borðinu.
Á fundinum voru samþykktar tillaga um að klúbburinn hætti starfsemi og nýrri stjórn yrði falið að ganga frá lausum endum. Einnig var samþykkt tillaga um úrgöngu úr UÍA og þar með GSÍ, ÍSÍ og UMFÍ og tillaga þar sem fráfarandi stjórn voru færðar þakkir fyrir margvísleg störf fyrir klúbbinn í gegnum tíðina.
Í nýja stjórn voru kjörnir: Sigurjón Geir Sveinsson, formaður, Jóhann Arnarsson, gjaldkeri, Hlynur Metúsalem Ársælsson, ritari. Í varastjórn voru kjörnir: Bjarni Kristjánsson, Hermann Ísleifsson og Emil Thorarensen.
UÍA boðaði til fundarins með vísan reglna ÍSÍ sem heimilar héraðssamböndum að boða til aðalfundar þegar hann hefur ekki verið haldinn í visst langan tíma. Björn Ármann Ólafsson, gjaldkeri UMFÍ, stýrði fundinum. Aðrir gestir fundarins voru: Gunnar Gunnarsson, starfs- og stjórnarmaður UÍA og varastjórnarmaður UMFÍ, Stefán Bogi Sveinsson, framkvæmdastjóri UÍA, Elín Rán Björnsdóttir, formaður UÍA, Helgi Sigurðsson, aðalstjórn ÍSÍ og Haukur Örn Birgisson, varaforseti GSÍ.