Vel heppnuð Austurlandsmót í frjálsum íþróttum

Frjálsíþróttaráð UÍA hélt í marsmánuði Austurlandsmót í frjálsum íþróttum innanhúss. Keppt var í tvennu lagi. Keppendur 11 ára og eldri kepptu í Fjarðabyggðarhöllinni á Reyðarfirði 6. mars en 10 ára og yngri kepptu í íþróttahúsinu á Fáskrúðsfirði 20. mars. Bæði mótin gengu mjög vel með dyggri aðstoð fjölda sjálfboðaliða frá félögunum. Keppendur á eldra mótinu voru á fimmta tug frá sex félögum. Keppt var í kúluvarpi, hástökki, langstökki, 60 metra hlaupi og 60 metra grindahlaupi. Ágætur árangur náðist í mörgum greinum en úrslit mótsins má nálgast hér. Mótið var undanfari að Meistaramóti Íslands í flokki 11-14 ára, en hópur af keppendum fór til Reykjavíkur viku síðar og keppti fyrir hönd UÍA á því móti.

Yngra mótið á Fáskrúðsfirði tókst mjög vel. Þar voru saman komnir hátt í fimmtíu keppendur frá sex félögum sem reyndu með sér í 40 metra spretthlaupi, langstökki án atrennu og boltakasti. Þá var einnig keppt í skemmtilegri þrautabraut þar sem skipt var í lið á staðnum. Allir keppendur fengu verðlaunapening í lok móts. Góðir gestir létu sjá sig, en hressir ávextir úr ávaxtakörfunni í uppsetningu Leikfélags Menntaskólans á Egilsstöðum heimsóttu mótið og tóku þátt í skemmtuninni. Úrslit á mótinu má finna hér.

Myndir frá báðum mótum er að finna í myndasafni hér á síðunni. Frjálsíþróttaráð UÍA mun hittast innan skammst til að setja niður dagsetningar fyrir önnur mót ársins. Sumarhátíð UÍA verður haldin 9. til 11. júlí en önnur mót verða auglýst þegar ákvörðun um dagsetningar þeirra liggja fyrir.

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ