Öflug sendinefnd á FRÍ þingi
Þing Frjálsíþróttasambands Íslands var haldið að Ásvöllum í Hafnarfirði nú um liðna helgi. UÍA átti rétt á fjórum þingfulltrúum og sóttu sex fulltrúar þingið fyrir hönd sambandsins sem aðal- og varamenn.
Þingfulltrúar voru Stefán Bogi Sveinsson framkvæmdastjóri UÍA, Lovísa Hreinsdóttir Hetti, Gréta Björg Ólafsdóttir Leikni, Ólafur Sigfús Björnsson Þristi, Gunnar Gunnarsson Þristi og Andri Mar Jónsson Leikni.
Á þinginu var farið yfir mótamál og samþykktar allmiklar breytingar á lögum og reglum sambandsins. Þá var kosið í nýja stjórn sambandsins en mikil endurnýjun varð í henni. Á meðal þeirra sem létu af störfum fyrir sambandið var Dóra Björk Gunnarsdóttir frá Fáskrúðsfirði en hún hefur setið í stjórn og varastjórn undanfarin 15 ár.
Enginn fulltrúi frá UÍA hlaut náð fyrir augum uppstillingarnefndar að þessu sinni. Frekari upplýsingar um þingið og nýja stjórn FRÍ má finna á heimasíðu sambandsins.