Sundþing í Reykjavík
Sundráð UÍA hefur verið mjög virkt undanfarin misseri og óhætt að segja að nokur gróska sé í sundstarfinu. Stefán Bogi Sveinsson framkvæmdastjóri UÍA sótti þing Sundsambands Íslands um liðna helgi fyrir hönd ráðsins og var þar margt merkilegt til umræðu. Á þinginu voru m.a. samþykktar reglur um víðavatnssund, en það ágæta nýyrði er haft um sjósund og sund í ám og vötnum. Sundsambandið telur mikil sóknarfæri í þessum geira og er þetta e.t.v. eitthvað sem Austfirðingar ættu að tileinka sér í rikari mæli.
Á þinginu var rætt um stefnu SSÍ og m.a. útbreiðslumál. Tók fulltrui UÍA þátt í þeirri umræðu og brýndi stærri og öflugri sunddeildir og sambandið sjálft til að styðja við viðleitni Austfirðinga að koma starfinu hér eystra á fullan skrið. Hlaut hann góðar undirtektir og voru margir áhugasamir um samstarf af einhverjum toga.
Þinginu lauk með veitingu heiðursviðurkenninga og voru þeir Ernst Backman og Óskar Ágústsson frá Laugum gerðir að heiðursfélögum en fjórir fengu silfurmerki.