UÍA á 12 íslandsmet í frjálsum íþróttum

Eftir mikið mótahald í frjálsum íþróttum í sumar vaknaði forvitni á skrifstofu UÍA um það hversu mörg íslandsmet UÍA ætti í frjálsum.

Athugun í metaskrá FRÍ leiddi í ljós að alls eru metin 12 en methafarnir 7. Sumir þeirra eiga þó fleiri íslandsmet en hafa sett þau sem keppendur fyrir önnur félög.

Borgfirðingurinn Egill Eiðsson, fæddur 1962, á met í 300 metra hlaupi í flokki unglinga 19-20 ára og 20-21 árs. Metin setti hann í Reykjavík 25. ágúst 1982 þegar hann hljóp á 34,6 sekúndum .

Brynjúfur Heiðar Hilmarsson, fæddur 1961, á met í1500 metra hlaupi í flokki unglinga 19-20 ára og 20-21 árs. Metin féllu í Gautaborg 4. ágúst 1981 þegar Brynjúlfur hljóp á tímanum 3:49,77. Hann á svo einnig metið í 2000 metra hlaupi drengja 17-18 ára, 5:35,2, sem hann setti í Sölleröd í Danmörku 14. ágúst 1979.

Pétur Pétursson, fæddur 1958, á metið í fimmtarþraut í flokki unglinga 19-20 ára. Það er 3495 stig og var sett í Reykjavík 17. júlí 1978.

Tónlistarmaðurinn Ármann Einarsson, fæddur 1965, á íslandsmet í þrístökki í flokki pilta 13-14 ára. Það setti hann á Húsavík 15. júlí 1979 þegar hann stökk 12,26 metra. Enginn hefur ógnað þessu meti svo heitið geti um langt skeið.

Lillý Viðarsdóttir, fædd 1969, á íslandsmet í maraþonhlaupi í flokki stúlkna 17-18 ára og ungkvenna 19-20 ára. Metið setti hún í Reykjavík 25. ágúst 1985 þegar hún lauk maraþonhlaupi á tímanum 3:32:03.

Haraldur Jónsson, fæddur 1963, á íslandsmetið í langstökki án atrennu innanhúss í flokki sveina 15-16 ára. Metið, 3,14 metra, setti hann á Borgarfirði eystra 9. desember 1979.

Að síðustu á svo Sigurður Karlsson frá Djúpavogi, fæddur 1980, tvö met í kúluvarpi innanhúss í flokki sveina 15-16 ára. Hann kastaði 5,5 kg. kúlu 15,19 metra á móti á Sauðárkróki 26. nóvember 1996. Aðeins nokkrum dögum síðar eða 10. desember 1996 kastaði hann á sama stað fullorðinskúlu, 7,26 kg. 13,26 metra. Hvoru tveggja er íslandsmet. Almennt er í þessum flokki keppt með 4 kg. kúlu en metið með þeirri þyngd á Hornfirðingurinn Vigfús Dan Sigurðsson sem keppti fyrir USÚ.

Nokkuð er um liðið síðan keppandi frá UÍA setti síðast íslandsmet og vonumst við til að úr því verði bætt fyrr en síðar.

 

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ