Stigakeppni í sundi og frjálsum íþróttum
Í sundi og frjálsum íþróttum er ekki aðeins keppt til verðlaunasæta heldur skipta stigin líka máli.
Í Frjálsíþróttakeppni Sumarhátíðar eru veitt stig fyrir 8 efstu sæti í hverri grein, 8 fyrir það efsta 7 fyrir annað sæti og síðan koll af kolli. Í mótinu er keppt um tvo stigabikara félaga. Annar bikarinn er veittur stigahæsta félaginu í flokki 17 ára og eldri og hinn fyrir stigahæsta félagið í flokki 16 ára og yngri.Aðeins félög innan vébanda UÍA geta orðið stigameistarar á mótinu. Þeir keppendur sem koma frá öðrum héraðssamböndum geta unnið til verðlauna og fá stig fyrir sín sæti en þeirra félög geta ekki orðið stigameistarar. Þessu til viðbótar er veittur bikar fyrir besta afrek mótsins í flokki 16 ára og yngri. Sá hlýtur þann bikar sem með afreki sínu öðlast flest unglingastig FRÍ, sem er staðlað stigaviðmið og er reiknað út í tölvuforriti mótsins.
Í sundmóti Sumarhátíðar er sami háttur á og í frjálsum um að gestakeppendur geta unnið til verðlauna en félag utan UÍA getur ekki orðið stigameistari. Samkvæmt ákvörðun sundráðs er stigakeppni sundmótsins með þessum hætti. Fyrstu 6 sæti í hverri grein hljóta stig, 12 fyrir fyrsta sætið, 10 fyrir annað sætið og svo koll af kolli. Það félag sem hlýtur flest stig á mótinu öðlast nafnbótina sitgameistari, verði tvö eða fleiri félög jöfn a stigum skal stigafjöldi fyrir boðsund ráða úrslitum.
Í sundinu eru síðan einnig veittir afreksbikarar fyrir bestan árangur í flokkum sveina, meyja, drengj, telpna, pilta og stúlkna. Þau hlýtur sá sundmaður í hverjum flokki sem flest stig hlýtur fyrir tiltekin stund sem tilgreind eru í reglugerð sundráðs.