Ólafur Bragi íþróttamaður UÍA
Akstursíþróttamaðurinn Ólafur Bragi Jónsson, úr Akstursíþróttafélaginu START, var um helgina útnefndur íþróttamaður UÍA árið 2008. Viðurkenningin var afhent á þingi sambandsins á Seyðisfirði.
Ólafur Bragi varð í fyrra Íslandsmeistari í flokki sérútbúinna bifreiða í torfæruakstri eftir harða baráttu í lokamótinu á Hellu. Auk þess að keppa hefur hann verið virkur í félagsstarfi akstursíþróttamanna á Austurlandi.
Framkvæmdastjóri UÍA, Stefán Bogi Sveinsson, sagði stjórn sambandsins líta á það sem sérstakan heiður geta verðlaunað akstursíþróttamann. Rík hefð væri fyrir akstursíþróttum á sambandssvæðinu og mikil gróska í starfinu nú þar sem Austfirðingar standa framarlega bæði í torfærunni, vélhjóla- og vélsleðaakstri.
Ólafur Bragi sagði verðlaunin heiður fyrir akstursíþróttirnar sem oft fengju litla athygli. Hann ítrekaði að torfæran væri ekki íþrótt einstaklingsins heldur legðu margir á sig mikla vinnu til að tryggja árangur.