Skottast um skóg og sullaði í sólinni á þriðja degi Frjálsíþróttaskólans

Frjálsíþróttaskólakrakkarnir slógu ekki slöku við í dag frekar en aðra daga. Af mannúðarástæðum var þó fell niður morgunleikfimi sem fara átti fram í bítið, enda mannskapurinn ansi stirður og lúinn eftir keppni gærkvöldsins. Engu að síður mætti hópurinn út á Vilhjálmsvöll glaðbeittur kl 9:00 á æfingu þar sem lögð var áhersla á liðleikaþjálfun auk þess sem Lovísa Hreinsdóttir kenndi spjótkast og Hildur kringlukast.

 

Eftir hádegismat lá leiðin inn í Hallormsstaðaskóg, þar sem sólin lék við hvurn sinn fingur og fuglarnir sungu við raust. Hópurinn fór á hestbak og þrátt fyrir að sumir væru ögn smeykir við farskjótana í fyrstu skelltu sér allir á bak, losnuðu fljótt við skrekkinn og nutu þess að tölta um skóginn. Eftir að hafa gætt sér á nesti var rölt inn í Atlavík þar sem við tóku bátsferðir og allsherjar sull í sólinni. Grillaðir sykurpúðar og bananar með súkkulaði runnu ljúflega niður í lok skógarferðarinnar. Þegar heim var komið og búið að gera kvöldmatnum góð skil, hélt hópurinn í Bjarnadalinn þar sem Kristbjörg Jónasdóttir kenndi undirstöðu atriði í strandblaki og því næst var spilað strandblak og ringó af hjartans lyst. Það var sólbakaður og sællegur hópur sem buslaði í sundlauginni í kvöldsólinni og lét líða úr sér eftir viðburðarríkan dag.

Myndir dagsins má finna á facebooksíðu UÍA

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.
Ok